„Nauðsynlegt til að tryggja framkvæmd“

Regina, barnsmóðir Eugene, ásamt tveimur sonum þeirra.
Regina, barnsmóðir Eugene, ásamt tveimur sonum þeirra. ljósmynd/No borders Iceland

„Það fá allir að tala við þá sem þeir þurfa að tala við hér á landi og hann fékk líka að gera það,“ segir Guðbrandur Guðbrandsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn sem fer fyrir stoðdeild ríkislögreglustjóra. Þar vísar hann í mál nígerísks manns sem vísað var úr landi fyrir helgi. Málið hefur verið töluvert gagnrýnt og bent hefur verið á að Eugene hafi ekki fengið að hitta fjölskyldu sína áður en honum var vísað úr landi. 

Fékk að tala við þá sem hann vildi kveðja í síma

Mbl.is hefur fjallað um mál Eugene Imotu, en hann er þriggja barna faðir sem búið hefur hér á landi í þrjú ár. Barnsmóðir hans, Regina Osaramaese og börnin þrjú búa einnig hér á landi en tvö barnanna fæddust á Íslandi. Eugene var handtekinn síðastliðinn þriðjudag og sendur úr landi á miðvikudag.

Að sögn Guðbrands er hvert og eitt mál metið, en lögregla hefur heimild til að handtaka þann sem á að brottvísa sólarhring áður en brottvikningin fer fram, til að tryggja framkvæmd. Segir hann viðkomandi þá geta haft samband við lögmann sem hafi sólarhringinn til að leggja fram gögn, ef þeim er til að dreifa, í von um frestun á brottflutningi.

Lögregla skoði sögu einstaklings hjá Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og í kerfi lögreglunnar, áður en farið er í aðgerðir. Í þessu tilviki hafi þótt nauðsynlegt að haga málum með þessum hætti til að tryggja framkvæmd. Eugene hafi þó verið gefinn kostur á að hringja í þá sem hann vildi kveðja hér á landi. 

Réttindi barnanna séu brotin

Gísli Kr. Björns­son, lögmaður Eu­gene og Reg­inu, sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi að hann teldi Útlendingastofnun ekki hafa kynnt sér málið nægilega vel og ekki haft mannúðarsjónarmið að leiðarljósi. Þá benti hann á að hungursneyð væri yfirvofandi í Nígeríu og því gæti hann ekki fallist á það með Útlendingastofnun að ástandið í Nígeríu sé stabílt. 

Þá hafa fulltrúar No Bor­ders Ice­land gagnrýnt málið harkalega og sagt það brjóta í bága við Mannréttindasáttmála Evrópu að sundra fjölskyldunni með þessum hætti. Katrín Oddsdóttir mannréttindalögfræðingur hefur einnig gagnrýnt málið og bent á að réttindi barnanna séu brotin því ekki megi skilja barn frá foreldri nema foreldrið skaði barnið.

För Reginu og barnanna frestað

Útlendingastofnun komst að niðurstöðu um brottflutning í október í fyrra og hefur Eugene beðið þess að vera vísað úr landi síðan. Synjað var um endurupptöku í málinu. Þá hafnaði Mannréttindadómstóll Evrópu beiðnum um bráðabirgðaaðgerðir.

För Reg­inu og barn­anna var hins vegar frestað á grund­velli þess að ný­lega féll úr­sk­urður í máli hjón­anna Abdelwahab Saad og Fadilu. Hjón­in fengu að vita það í síðustu viku að þau fá að dvelja áfram á Íslandi eft­ir að kær­u­nefnd Útlend­inga­mála lagði það fyr­ir Útlend­inga­stofn­un að veita fjöl­skyld­unni dval­ar­leyfi í ljósi aðstæðna. Grund­vallaðist ákvörðunin að mestu leyti á því hversu lengi fjöl­skyld­an hef­ur verið hér á landi, eða rúm þrjú ár.

Málið er sam­bæri­legt máli Eu­gene og Reg­inu og bjóst Gísli því við því að þau fengju öll að vera áfram hér á landi. Ástæðuna sem lög­regl­an gaf fyr­ir því að taka mál­in þeirra fyr­ir hvort í sínu lagi seg­ir Gísli hafa verið að þau búi ekki sam­an. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert