Hafi mátt búast við uppsögnunum

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Auðvitað er þetta leiðinlegt fyrir þá sem í því lenda, en þeir ráða sig vitandi að þetta sé líklega það sem gerist,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, um uppsagnir að minnsta kosti 115 flugmanna hjá félaginu. 70 flugstjórar til viðbótar verða færðir niður í stöðu flugmanns. Sam­tals starfa um 520 flug­menn hjá fé­lag­inu. 

Guðjón segir að um sé að ræða árlegar breytingar sem verði til vegna árstíðarsveiflu í greininni. Verklagið hafi verið með þessum hætti í mörg ár, en þörf fyrir starfsmenn sé nú sem endranær mun meiri yfir háannatímann en yfir veturinn.

„Það er svo sem ekkert nýtt í þessu. Þetta er svipað og hefur verið um árabil,“ segir hann. Uppsagnirnar eru fleiri en í fyrra, en Guðjón segist það helgast af því að vöxturinn hafi verið mjög mikill á síðasta ári.

Örn­ólf­ur Jóns­son, formaður Fé­lags ís­lenskra at­vinnuflug­manna (FÍA), gagnrýndi uppsagnirnar í samtali við mbl.is fyrr í dag. Sagði hann að það væri allt eins víst að einhver hluti hópsins myndi ekki snúa aftur til starfa þegar félagið þyrfti aftur á þeim að halda.

Hver eru viðbrögð Icelandair við þessu? „Þau eru í raun engin. Þetta er eitthvað sem flugmenn, ungir og eldri þekkja vel,“ segir Guðjón en bendir á að störfin hjá Icelandair hafi verið eftirsótt störf. 

Þá bendir hann á ákvæði kjarasamninga flugmanna þar sem kveðið sé á um það að flugmenn séu fastráðnir á vorin en sagt upp á haustin í stað þess að vera ráðnir inn sem sumarstarfsmenn. Þetta er ólíkt því sem á við um aðra starfsmenn félagsins eins og flugliða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert