Rýnt í samskipti foreldra og skóla

Berglind Rós Magnúsdóttur, lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Auður …
Berglind Rós Magnúsdóttur, lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Auður Magndís Auðardóttir, félagsfræðingur og doktorsnemi.

Þegar ný grunnskólalög tóku gildi árið 2008 voru lagðar auknar skyldur á herðar foreldra að bera meiri ábyrgð að farsæld barnsins inn í kerfinu. Á meðal lögboðinna hlutverka foreldra eru meðal annars aðstoð við heimanám, virk samskipti við kennara og skólayfirvöld. Fram að þessu hefur ekki verið skoðuð hvaða áhrif lögin hafa haft og hvernig þau snerta möguleika ólíkra foreldra til að uppfylla þessar kröfur.

Berglind Rós Magnúsdóttir, lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, hlaut níu milljóna króna styrk úr Jafnréttissjóði á dögunum til að vinna að rannsókn á þessu sviði. Umsóknin var þróuð í samstarfi við Auði Magndísi Auðardóttur, félagsfræðing og doktorsnema, sem mun vinna að verkefninu sem hluta af doktorsritgerð sinni.

Rannsóknin heitir: Virkni, val og skyldur foreldra á íslenskum menntavettvangi: Samspil kyns og félagsstöðu. Hún er jafnframt brautryðjendaverk í menntarannsóknum hérlendis þar sem hún skoðar samspil kyns og stéttar í ljósi aldurs, hjúskaparstöðu, stöðu á vinnumarkaði, búsetu og uppruna. Auk Berglindar og Auðar munu fjölmargir fræðimenn og nemendur á menntavísindasviði HÍ vinna að rannsókninni.

Þær lykilspurningar sem leitað verður svara við eru: Með hvaða hætti spilar kyn og stétt mæðra og feðra saman þegar kemur að samskiptum foreldra við skóla barna sinna? Hverjar eru áskoranir hópanna og bjargráð? Hvaða áhrif hefur kyn, hjúskaparstaða og aðrir veigamiklir bakgrunnsþættir á borð við uppruna, stétt, tungumál, trúarbrögð, aldur, búsetu, fötlun og sérþarfir barns á valdatengsl þeirra innan menntavettvangsins? 

Fjölþjóðleg þróun 

Nýju lögin sem tóku gildi hér árið 2008 eru hluti af fjölþjóðlegri þróun þar sem auknar skyldur eru lagðar á foreldra. „Það sem er sértakt við okkur umfram flesta aðra er að atvinnuþátttaka kvenna hér á landi með því mesta sem mælist í vestrænum heimi og fæðingartíðni er há,“ segir Berglind.  

Í þessu ljósi verður forvitnilegt að skoða meðal annars hvernig kynin axla þessa ábyrgð, að sögn Berglindar. „Það er til dæmis fátítt að konur telji sig þurfa að hætta að vinna til að sinna þessu hlutverki í kringum börnin eins og tíðkast til dæmis í Bandaríkjunum.“ 

Hins vegar sýna rannsóknir á Norðurlöndunum, þar sem jafnrétti kynja er talið með allra besta móti, leggjast foreldraskyldur enn ójafnt á mæður og feður. Mæður bera enn meiri ábyrgð á uppeldi, aðstoð við heimanám og samskipti við skóla barna sinna heldur en feður. Sá veruleiki stuðlar að ójafnvægi hvað varðar aðgengi að og þátttöku á vinnumarkaði og atvinnulífi.

„Aukin vitneskja okkar um þessa ólaunuðu vinnu mun nýtast með beinum hætti til að vinna að réttlátari skiptingu uppeldis- og heimilisverka á milli kynjanna. Stór hluti skýrðs launamunar kynjanna er til kominn vegna ólíks vinnuálags á heimili þar sem mæður vinna að jafnaði meira af uppeldisstörfunum og eru því líklegri til að vera í hlutastarfi sem aftur leiðir til þess að ólíklegra er að þær hafi aðgang að framgangi á vinnumarkaði. Þannig munu niðurstöður þessarar rannsóknar nýtast með beinum hætti inn í umræðuna um launajafnrétti karla og kvenna,“ segir Berglind.  

Þegar ný grunnskólalög tóku gildi árið 2008 voru lagðar auknar …
Þegar ný grunnskólalög tóku gildi árið 2008 voru lagðar auknar skyldur á herðar foreldra á farsæld barnsins inni í kerfinu. mbl.is/Valdís

Mæður sýnilegri í skólastarfi

„Mæður hafa borið hitann og þungann af samskiptum við skólasamfélagið, þær eru sýnilegri inn í skólunum og í samskiptum við kennara,“ segir Berglind og vísar í bæði erlendar og íslenskar rannsóknir á þessu sviði. Í rannsókninni verður sjónum einnig beint að stöðu og hlutverki feðra, einkum einstæðra feðra. Skoðað verður hvaða veruleiki mætir þessum feðrum í þjóðfélagi sem gerir enn ráð fyrir meiri uppeldisvinnu mæðra og skoðað hvernig þeir takast á við foreldraskyldur innan menntavettvangsins þar sem mæður hafa verið sýnilegri og virkari þátttakendur.

Í fjölþjóðlegri rannsókn sem Ársæll Arnarsson prófessor stýrir þar sem 11, 13 og 15 ára börn voru spurð um ýmsa þætti varðandi heilsu, líðan og félagslegar aðstæður kom í ljós að íslenskir feður mældust í bestum tengslum við börn sín borið saman við feður annarra þátttökuþjóða. „Þessum niðurstöðum ætlum við að fylgja eftir með því að skoða hvernig feður tengjast skóla- og frístundastarfi barna sinna, bæði þeirra sem eru kvæntir/í sambúð, eru einstæðir feður, eða búa einir og fá börnin inn á heimili sitt til jafns á við mæðurnar,“ segir Berglind.

Talsverður hópur feðra búa einir og sinna stórum hluta uppeldis barna sinna eins og í gegnum sameiginlegt forræði þótt barn eigi lögheimili hjá móður sinni. Samkvæmt núgildandi lögum verður barn að vera með eitt skráð lögheimili þrátt fyrir að foreldrar séu með sameiginlegt forræði. „Hugmyndin er því að hugtakið „einstæðir feður“ sé víkkað út til að ná til breiðari hóps,“ segir Berglind.

Erlendir foreldrar aðlagast ólíkri skólamenningu 

Sjónum verður einnig beint að börnum sem eiga erlenda foreldra. Hérlendar rannsóknir á stöðu erlendra foreldra gagnvart skólagöngu barna sinna sýna að þeir rekast á menningarbundnar hindranir og hindranir er varða tungumál og málskilning. Að auki eru þeir oft að fást við ólíka skólamenningu en þeir hafa sjálfir alist upp við. „Það er mikilvægt að rödd þeirra heyrist líka því þeir eru að fást við ólíka skólamenningu en þá sem þeir ólust sjálfir upp við,“ segir Berglind.

Í rannsókninni er gert ráð fyrir að tekin verða 75 djúpviðtöl við foreldra. Gert er ráð fyrir að bók með niðurstöðum rannsóknarinnar komi út veturinn 2019-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert