Auka eftirlit með ferðaþjónustu

Við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi
Við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi mbl.is/Ómar Óskarsson

Ferðamálastofa er að bæta við sig starfsfólki til að geta betur sinnt eftirliti með fyrirtækjum sem fengið hafa starfsleyfi hjá stofunni. Leyfisveitingar og eftirlit með ferðaþjónustunni eru í höndum margra stofnana.

Ferðamálastofa veitir ferðaskrifstofum og afþreyingarfyrirtækjum starfsleyfi en hópferðir, siglingar og flug heyra undir Samgöngustofu. Gististaðir og veitingahús þurfa leyfi frá sýslumönnum og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga og fleira mætti telja. Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður gæða- og þróunarsviðs Ferðamálastofu, segir að þetta sé ferðaskrifstofan í hnotskurn. Hún sé flókin og fjölbreytt. Hann segir að oft hafi verið rætt um að einfalda kerfið og ýmislegt verið gert í því.

Starfar enn hjá fyrirtækinu

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að starfsmaður ferðaþjónustufyrirtækis við Jökulsárlón, sem ákærður hefur verið fyrir manndráp af gáleysi vegna slyss sem varð þar í ágúst 2015, starfar enn hjá fyrirtækinu. Réttindi hans til að stýra bátnum eru þau sömu og á slysdag.

Slysið átti sér stað þegar skipstjórinn bakkaði hjólabáti á plani Jökuls- árlóns. Kanadísk fjölskylda stóð fyrir aftan bátinn og tók maðurinn ekki eftir þeim með þeim afleiðingum að einn þeirra lenti undir bátnum. Ferðamaðurinn, kanadísk kona, lést samstundis.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa skilaði skýrslu um málið fyrir helgi. Þar var þeim tilmælum meðal annars beint til rekstraraðila hjólabátsins að tryggja að skipstjórar hafi tilskilin réttindi til að stýra slíkum farartækjum. Skipstjóri skipsins hafði réttindi til að stjórna skipum að þrjátíu brúttó-tonnum en þennan dag ók hann 65 brúttótonna bát, segir í frétt Fréttablaðsins.

Reyna að vanda sig

Lögreglan hefur að mestu haft með höndum eftirlit með starfsemi samkvæmt þeim leyfum sem Ferðamálastofa gefur út. Elías segir að hún hafi ekki getað sinnt eftirlitinu eins og æskilegt hafi verið. Þess vegna sé Ferðamálastofa að bæta við mannskap og muni reyna að sinna því betur. Ferðamálastofa hefur í gegnum tíðina fylgst með auglýsingum fyrirtækja og tekið við ábendingum og haft samband við þau fyrirtæki sem ekki hafi tilskilin leyfi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert