Galdradrengurinn sem fékk íslenska unglinga til að lesa

Daniel Radcliffe í hlutverki Harry Potter.
Daniel Radcliffe í hlutverki Harry Potter. AFP

Tuttugu ár eru í dag síðan fyrsta bókin um galdrastrákinn Harry Potter kom út hjá Bloomsbury-útgáfunni í London. Fáir sáu þá líklega fyrir þá sigurför sem bókin og næstu sex bækur áttu eftir að fara um heiminn. Þær hafa selst í um 500 milljónum eintaka og er bókaflokkurinn sá mest seldi í sögunni. Höfundur þeirra er Joanne Rowling, sem er reyndar þekkt undir höfundarnafninu J.K. Rowling.

Anna Heiða Pálsdóttir bókmenntafræðingur skrifaði doktorsritgerð sína í bókmenntum um íslenskar og enskar barna- og unglingabækur, m.a. um fyrstu Harry Potter-bækurnar. Hún segir bækurnar hafa valdið straumhvörfum í heimi barna- og unglingabóka. „Það eru svo margar bækur sem hafa ekki hitt í mark því það er gert ráð fyrir að börn viti ekki neitt,“ segir Anna.

Ekki bara blautir kossar og drama

„Fólk gerði sér loksins grein fyrir því á þessum tíma að góðar unglingabækur eru ekki bara unglingabækur með blautum kossum og allir í sleik.“ Góðar unglingabækur geti höfðað til breiðari hóps og hún bækurnar um Hungurleikana sem dæmi um það.

Að sögn Önnu Heiðu eiga margar vísanir í bókunum um Harry Potter rætur sínar í fornsögum og ýmis orð og nöfn sögupersóna koma úr latínu. Hún segir þetta dæmi um að bækurnar höfði til fjölbreytts hóps. Vel sé hægt að lesa bækurnar án þess að velta þessu nokkuð fyrir sér en þær glæði söguna lífi hjá þeim sem taki eftir.

AFP

En hvað skýrir þessar miklu vinsældir?

Anna Heiða segir aðalatriðið í Potter-bókunum vera að uppgötva eigin köllun, sem muni síðan hjálpa öðrum. Fantasíubókmenntir byggi að miklu leyti á því. „Rowling tók það besta úr öllum sagnaheimum og sameinaði,“ segir Anna og tekur sem dæmi heilaga kaleikinn, sem kemur fyrir í fyrstu bókinni sem viskusteinninn.

Hún segir bókaflokkinn hafa átt sinn þátt í því að draga úr fordómum fólks gegn fantasíubókmenntum. Í kennslunni við HÍ taki hún eftir að oft gæti fordóma í garð fantasíubókmennta meðal eldri nemenda en þeir séu síður til staðar hjá þeim yngri.

Anna Heiða segir bókaseríuna hafa haft mikil og jákvæð áhrif á lestrarvenjur ungs fólks. 

Anna Heiða Pálsdóttir, bókmenntafræðingur og þýðandi.
Anna Heiða Pálsdóttir, bókmenntafræðingur og þýðandi. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert