Dúxinn segir skipstjórann skipta máli

Atli Hafþórsson var brautskráður með 9,25 í aðaleinkunn. Hann hefur …
Atli Hafþórsson var brautskráður með 9,25 í aðaleinkunn. Hann hefur áhuga á að stunda frekari rannsóknir tengdar sjávarútvegi. Ljósmynd/Atli Hafþórsson

Atli Hafþórsson var með hæstu einkunn brautskráðra meistaranema við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands um helgina en hann útskrifaðist þar með meistarapróf í aðferðafræði. Aðaleinkunn hans var 9,25 og segir hann í samtali við mbl.is það koma sér skemmtilega á óvart að hann hafi verið hæstur í deildinni.

Ritgerð hans fjallaði um gamalt álitamál innan fræðasamfélagsins bæði hér heima og erlendis, um áhrif skipstjóra á aflasæld. „Þessar deilur sem áttu sér aðallega stað á níunda áratugnum lauk aldrei. Ég beitti tölfræðiaðferð sem ekki hefur verið notuð hérlendis áður í rannsóknum á þessu sviði og skoðaði bæði gömul gögn og nýrri,“ segir Atli.

Skilvirknin meiri og landslið skipstjóra á sjó

„Ég skoðaði gögn frá síldarárunum og niðurstaðan þar er skýr, áhrif skipstjóra á aflasæld voru þá mikil. Sú niðurstaða þurfti ekki að koma á óvart,“ segir Atli. Í nýrri gögnum, frá frjálsum makrílveiðum árið 2009, mælir hann enn þá markverð áhrif skipstjóra á aflasæld, þó mun minni en á síldarárunum.

„Á síldarárunum héldu 250 bátar til uppsjávarveiða en þeir eru ekki nema 20 í dag. Skilvirkni flotans er mun meiri nú en áður,“ segir Atli. Hann segir að miklar kröfur séu gerðar um gæði skipstjóra og þess vegna kunni að vera dulin áhrif skipstjóra á aflasæld þar sem „landslið skipstjóra“, þ.e. aðeins þeir bestu, eru þeir einu sem róa í dag. 

Atli er frá Akureyri en nú búsettur í Kópavogi. Hann er fæddur árið 1978 og var áður til sjós. Þaðan er áhuginn á sjávarútvegi kominn. Spurður hvað taki nú við segist hann ætla í doktorsnám innan félagsvísinda en annað sé óráðið, en hann starfar nú við rannsóknir hjá Háskóla Íslands. Atli segist þó áhugasamur um frekari rannsóknir tengdar sjávarútvegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert