Endurbætur við Deildartunguhver

Í byrjun júlí hefjast framkvæmdir við Deildartunguhver. Er þetta fyrst …
Í byrjun júlí hefjast framkvæmdir við Deildartunguhver. Er þetta fyrst og fremst gert til þess að bæta aðgengi og öryggi ferðamanna við hverinn. Ljósmynd/Hallgrímur Már Hallgrímsson

Í byrjun júlí ætla Veitur að hefja framkvæmdir við Deildartunguhver en meðan á framkvæmdunum stendur mun aðgengi að hvernum minnka. Er þetta gert til þess að bæta aðstöðu ferðamanna og tryggja öryggi þeirra.

Deildartunguhver er vatnsmesti hver landsins. Hann er vinsæll viðkomustaður ferðamanna auk þess sem hann sér Borgfirðingum og Akurnesingum fyrir heitu vatni. Í tilkynningu frá Veitum kemur fram að nauðsynlegt sé að bæta aðstæður í kringum hverinn sem er 100 gráðu heitur en meðal þess sem gert verður er að hækka öryggisgrindverk í kringum hann.

Samhliða endurbótunum verða einnig safnlagnir fyrir heita vatnið úr hvernum endurnýjaðar og dæluhúsið stækkað til þess að koma þar fyrir þrýstijöfnunarbúnaði fyrir hitaveituna.

Áætlað er að sá hluti framkvæmdanna sem hefur hvað mest áhrif á ferðamenn muni standa fram í lok október og á meðan verður komið fyrir bráðabirgðapalli fyrir gesti.

Veitur hvetja ferðamenn og starfsfólk í ferðaþjónustu til að sýna sérstaka varúð meðan á framkvæmdum stendur. Ekki er gert ráð fyrir að þær hafi áhrif á afhendingaröryggi á heitu vatni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert