Fá milljónastyrk til að efla hjúkrunarfræði

Mynd af íslenskum þátttakendum í rannsókninni, þeim Þóru B. Hafsteinsdóttur, …
Mynd af íslenskum þátttakendum í rannsókninni, þeim Þóru B. Hafsteinsdóttur, Helgu Jónsdóttur, Herdísi Sveinsdóttur og Sigríði Gunnarsdóttur. Aðsend mynd

Alþjóðlegur hópur vísindamanna á sviði hjúkrunarfræði undir forystu prófessora við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og University Medical Center í Utrecht í Hollandi hefur fengið um 40 milljóna króna styrk til verkefnis sem miðar að því að efla doktorsnema og nýdoktora á sviði hjúkrunarfræði sem leiðtoga og vísindamenn. Um leið er markmiðið að efla rannsóknir á sviðinu.

Verkefnið ber heitið „Nursing Leadership Educational Program for Doctoral and Postdoctoral Nurses in Europe“ og hlýtur styrk í gegnum Erasmus + áætlun Evrópusambandsins. Að því koma fulltrúar frá Íslandi, Hollandi, Þýskalandi, Finnlandi, Portúgal og Litháen en íslenskir þátttakendur eru þær Þóra B. Hafsteinsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og University Medical Center í Utrecht í Hollandi, Helga Jónsdóttir og Herdís Sveinsdóttir, prófessorar við Hjúkrunarfræðideild,  og Sigrídur Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala og dósent við Hjúkrunarfræðideild.

Verkefnið er jafnframt unnið í samstarfi við Alþjóðlegu hjúkrunarsamtökin Sigma Theta Tau International (STTI), Evrópsku hjúkrunarfræðistofnunina (European Academy of Nursing Science) og Evrópusamtök kennara í hjúkrunarfræði (European Federation of Nurse Educators).

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands segir að verkefninu sé ætlað að bregðast við skorti á leiðtogum, bæði rannsakendum og kennurum, innan hjúkrunarfræðinnar. Bent hafi verið á, meðal annars á vettvangi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), að þessi skortur standi framþróun hjúkrunarfræði og þar með umönnun sjúklinga í heiminum fyrir þrifum.

Aðalmarkmið verkefnisins er því að efla framtíðarleiðtoga innan hjúkrunarfræði, bæði á sviði kennslu og rannsókna, og stuðla að öflugu rannsóknastarfi á sviðinu þvert á landamæri. Þannig verður doktorsnemum og nýdoktorum í hjúkrunarfræði boðið upp á bæði starfsþróunarverkefni og þjálfun sem sem gerir þá betur færa um að stunda hágæðarannsóknir og -kennslu í háskóla. Hvort tveggja er talið munu efla vísindastarf innan hjúkrunarfræði í Evrópu og stuðla að frekari þróun á kennsluefni í greininni í takt við þarfir samfélagsins.
 
Í tengslum við verkefnið er m.a. stefnt að því að bjóða upp á eins og hálfs árs námskeið fyrir doktorsnema og nýdoktora sem vilja efla færni sína sem leiðtogar og vísindamenn og styðja þá í að tengjast leiðtogum og vísindamönnum í öðrum löndum. Jafnframt á að þróa opið netnámskeið (MOOC) tengt viðfangsefninu sem gæti nýst fleiri aðilum í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert