Faldi 107 pakka af hassi í líkamanum

Héraðsdómur Austurlands.
Héraðsdómur Austurlands. mbl.is/Gúna

Karlmaður var í gær dæmdur í 12 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Austurlands fyrir fíkniefnasmygl, önnur fíkniefnabrot, líkamsárás og heimilisofbeldi. Þá var manninum gert að greiða 829.056 krónur í sakarkostnað.

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi staðið að útflutningi frá Íslandi og innflutningi til Grænlands á samtals 665 grömmum af hassi ætluðum til söludreifingar í Grænlandi. Fíkniefnin flutti hann sem farþegi með flugi frá Íslandi til Ilulissat í Grænlandi, falin í líkama sínum í 107 pakkningum.

Sló föður sinn með hnefahöggum í andlit

Þá var maðurinn sakfelldur fyrir að hafa slegið föður sinn nokkur hnefahögg í höfuð og andlit með þeim afleiðingum að faðir hans hlaut mikla bólgu og mar við vinstra auga, skurð á efra augnloki vinstra megin og brot á andlitsbeinum vinstra megin. Auk þess skertist hreyfigeta vinstra auga og lokun neðra augnloks vinstra megin skaddaðist, hornhimna augans rispaðist og hann hlaut nokkra tvísýni.  

Loks var maðurinn sakfelldur fyrir að hafa haft 9 kannabisplöntur í bílskúr við heimili sitt og muni sem ætlaðir voru til ólögmætrar ræktunar kannabisjurta. Voru plönturnar og munirnir gerð upptæk, en um var að ræða 550,18 grömm af hassi, 9 kannabisplöntur, 9 blómapotta, einn 4 tommu barka, þrjá plastbakka, loftblásara, loftsíu, tvær rafmagnsviftur, spennugjafa fyrir ræktunarlampa, gróðurtjald, gróðurhúsalampa, fimm plastfötur ásamt plastbökkum, tvö rafmagnsfjöltengi, tímarofa og stálsúlur til að halda upp gróðurtjaldi.

Játaði skýlaust

Í skýrslutökum játaði maðurinn á sig brotin en sagðist einungis hafa verið burðarmaður efnanna frá Íslandi til Grænlands. Önnur fíkniefnabrot og líkamsárás játaði hann á sig skýlaust.

Í dómnum kemur fram að maðurinn eigi sér langan sakaferil. Hann hafi frá árinu 2000 hlotið 18 refsidóma og gengist undir eina lögreglustjórasátt vegna ýmissa brota.

Dómurinn í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert