Keyrði krossara undir áhrifum í miðbænum

Áður en hann var handtekinn reyndi maðurinn að komast undan …
Áður en hann var handtekinn reyndi maðurinn að komast undan lögreglu á hjólinu en fannst skömmu síðar. Hann var svo fluttur á lögreglustöð þar sem hann var færður í blóðsýnatöku og í framhaldinu var hann vistaður í fangaklefa. Ljósmynd/mbl

Karlmaður var handtekinn í miðborginni klukkan átta í morgun vegna gruns um akstur krossara undir áhrifum fíkniefna. Auk þess var hann með meint fíkniefni á sér. Áður en hann var handtekinn reyndi maðurinn að komast undan lögreglu á hjólinu en fannst skömmu síðar eftir eftirför þar sem hann hafði skilið við hjólið og falið sig skammt frá því. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Karlmaðurinn ók upp á gangstétt þegar hann var að reyna að komast undan lögreglu og olli því mikilli hættu fyrir vegfarendur auk þess sem torfæruhjólið var ekki í lögmæltu ástandi og ótryggt. Karlmaðurinn var fluttur á lögreglustöð þar sem hann var færður í blóðsýnatöku og í framhaldinu var hann vistaður í fangaklefa.

Einnig var var karlmaður handtekinn klukkan hálfsex í morgun í miðborginni vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Var hann einnig fluttur á lögreglustöð til blóðsýnatöku en var frjáls ferða sinna að því loknu.

Samkvæmt lögreglu var tilkynnt um innbrot í atvinnuhúsnæði í Reykjavík í morgun og auk þess umferðaróhapp í Kópavogi þar sem fólksbifreið hafði verið ekið á stólpa inni í bílastæðahúsi. Var ökumaðurinn óslasaður og um að ræða minni háttar skemmdir á bifreiðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert