Mynda gönguleiðir á Reykjanesi

Stefnt er að því að kortleggja og mynda allar gönguleiðir …
Stefnt er að því að kortleggja og mynda allar gönguleiðir á Reykjanesi með 360° myndavél. Ljósmynd/ Markaðsstofa Reykjaness

Reykjanes Geopark, Markaðsstofa Reykjaness og GeoCamp Iceland í samstarfi við Google standa að sameiginlegu verkefni sem miðar að því að kortleggja og mynda allar gönguleiðir á Reykjanesi með 360° myndavél.

Hugmyndin að verkefninu kviknaði þegar aðilar frá Reykjanes Geo Park og Geo Camp Iceland funduðu með Google í San Francisco í desember en þau hafa verið að þróa kennsluefni í gegnum Google Maps. Arnbjörn Ólafsson hjá Geo Camp Iceland segir þau í kjölfarið hafa sótt um styrk til verkefnisins hjá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja sem þau fengu.  

Af fundi samstarfsaðila verkefnisins á AGU – American Geophysical Union …
Af fundi samstarfsaðila verkefnisins á AGU – American Geophysical Union ráðstefnunni í San Francisco á síðasta ári. Frá vinstri eru John Bailey frá Google Geo Education, Þuríður Aradóttir Braun frá Markaðsstofu Reykjaness/Reykjanes UNESCO Global Geopark og Arnbjörn Ólafsson frá GeoCamp Iceland. Ljósmynd/

Gagnvirkt kennsluefni

Verkefnið hefur fengið nafnið „Gagnvirkir fræðslustígar á Reykjanesi: Google Maps í menntun fræðslu og markaðssetningu“. Markmið þess er að búa til gagnvirkt fræðsluefni þar sem innlendir og erlendir nemendur geta nýtt jarðfræði og jarðsögu Reykjanesskaga á gagnvirkan hátt, bæði í þeim tilgangi að kynnast svæðinu betur og í að vinna verkefni í tengslum við Google Education og Geo Park Iceland sem skipuleggur nemendaferðir um svæðið.

„Það er töluvert mikið af nemendahópum sem eru að koma á Reykjanesið af því þetta er svo einstakt jarðsögulegt svæði en þetta er eina svæðið í heiminum þar sem þú sérð Mið-Atlantshafshrygginn koma á land,“ segir Arnbjörn.

Google tekur þátt í verkefninu með því að þróa kennsluefni en Arnbjörn segir að væntanlega muni þau í framhaldinu koma með stærri myndavélar svo hægt sé að mynda stærra svæði. Búnaðurinn gerir ráð fyrir því að fólk geti notað sýndarveruleika til þess að vinna verkefni í sambandi við hin ýmsu svæði á Reykjanesinu en auk göngustíga er stefnt að því að mynda önnur jarðfræðilega mikilvæg eða merkileg landsvæði (e. geo sites).

Á Reykjanesi er fjöldinn allur af göngustígum og jarðfræðilega merkilegum …
Á Reykjanesi er fjöldinn allur af göngustígum og jarðfræðilega merkilegum svæðum sem unnið er að því að mynda fólki til fræðslu og skemmtunar. Ljósmynd/ Markaðsstofa Reykjaness

Á sama hátt og hægt er að keyra um götur borgarinnar í Google Street View verður hægt að ganga um Reykjanesið en stefnt er að því að mynda allar gönguleiðir á Reykjanesinu en þær eru töluvert margar.

„Ekki það að við viljum endilega fá fólk á Reykjanesið,“ segir Arnbjörn og hlær en bætir við að verkefnið nýtist bæði þeim sem af einhverjum ástæðum komast ekki til landsins og fyrir ferðamenn sem vilja kynna sér svæðið áður en þeir leggja af stað. Einnig geta ferðaþjónustuaðilar nýtt sér búnaðinn, kynnt sér svæðið og sýnt gestum gönguleiðir sem hægt er að ganga áður en lagt er af stað. 

Samfélagslegt verkefni

Reykjanes Geopark, Markaðsstofa Reykjaness og GeoCamp Iceland hafa þegar kallað eftir fólki sem hefur áhuga á að ganga um svæðið með myndavélarnar.

„Hugmyndin var að við ætluðum að ráða einhvern til þess að labba um Reykjanesið en þetta er svo vinsælt göngusvæði meðal fólks að við hugsuðum af hverju ekki að gera þetta að samfélagslegu verkefni líka og leyfa fólki að labba um með myndavélarnar,“ segir Arnbjörn.

Þau reikna með að víkka út svæðið en hluti af Reykjanesinu fellur undir Hafnarfjörð, þar með talið Seltún og Krísuvík. Munu þau reyna að bæta við svæðum og leyfa fólki að ganga þær leiðir sem það hefur áhuga á.

Verkefnið hefur vakið athygli út fyrir landsteinana en þetta er í fyrsta sinn sem slíkt er gert með svona stórt landsvæði. Arnbjörn segir að í framhaldinu væri hægt að nýta þetta á fleiri jarðvöngum (e. geo park) um allan heim þar sem fólk getur kynnst jarðfræði og jarðsögu í gegnum gagnvirkan heim Google Education og Google Maps. 

Göngufólk sem hefur áhuga á að taka þátt í verkefninu í sumar getur nálgast nánari upplýsingar ásamt því að skrá sig hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert