Bregðast við offitu barna

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra ræddi stefnu íslenskra stjórnvalda í heilbrigðismálum á …
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra ræddi stefnu íslenskra stjórnvalda í heilbrigðismálum á nýyfirstaðinni ráðstefnu smáríkja um heilbrigðismál á Möltu. Ljósmynd/WHO

Árlegum fundi smáþjóða um heilbrigðismál á Möltu lauk í dag þar sem meðal annars var undirrituð sameiginleg yfirlýsing þjóðanna um að sporna megi við vaxandi offitu barna með fjölbreyttum aðferðum og stuðla þar með að bættum uppvaxtarskilyrðum.

Óttar Proppé heilbrigðisráðherra tók þátt á tveggja daga ráðstefnunni sem haldin var á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Er þetta í fjórða sinn sem fundurinn er haldinn en alls taka átta smáríki þátt: Andorra, Kýpur, Lúxemborg, Malta, Mónakó, Svartfjallaland, San Marínó og Ísland. Öll eiga þau það sameiginlegt að íbúafjöldi þeirra er innan við eina milljón.

Í frétt Velferðarráðuneytisins kemur fram að á fundunum væri meðal annars fjallað um hvernig smáríkin geti verið fyrirmynd annarra þjóða í sjálfbærum verkefnum á sviði velferðar og heilsu og fara þau þar að fordæmi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Viðfangsefni fundarins voru fjölbreytt en meðal þess sem um var rætt voru áskoranir í lyfjamálum fyrir fámennar þjóðir en þeim getur reynst erfitt að tryggja nægt framboð nauðsynlegra lyfja á hverjum tíma. Lítill markaður torveldar hagkvæm innkaup auk þess sem væntingar fólks um innleiðingu nýrra og dýrra lyfja annars vegar og raunhæfs útgjaldaramma hins opinnberra hinsvegar getur skapað ójafnvægi.

Á fundinum í ár fjallaði Óttar Proppé meðal annars um stefnu í heilbrigðismálum hér á landi sem felur í sér aukna áherslu á öflugri heilsugæslu, að efla þverfaglegt samstarf auk þess að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Þá ræddi hann einnig um verkefni Embættis landlæknis um heilsueflandi samfélög og áform um að fá öll sveitarfélög landsins til þess að taka þátt í verkefninu á næstu misserum.

Í lok fundarins undirrituðu ríkin sameiginlega yfirlýsingu sem miðar að því að bregðast við offitu barna og þeim alvarlega vanda sem hún er með því að setja sér markmið um að snúa þróuninni við með fjölþættum aðferðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert