Íslendingar leggja mest til UN Women

Landsnefnd UN Women á Íslandi leggur samtökunum til hæsta fjárframlag allra landsnefnda, óháð höfðatölu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UN Women, stofnunar Sameinuðu þjóðanna í þágu kvenna og jafnréttis um allan heim, fyrir árið 2016.

Landsnefndir UN Women eru fimmtán talsins en undanfarin tvö ár hefur íslenska landsnefndin sent annað hæsta framlag landsnefnda, á eftir Ástralíu. Nú sendir hún hæsta framlagið.

„Starfsemi landsnefndarinnar hefur vaxið ört á undanförnum árum. Síðasta ár var engin undantekning og jukust framlög landsnefndarinnar um 41% á milli áranna 2015 og 2016. Um helmingur af heildarframlagi landsnefndarinnar rann til verkefna sem miða að því bæta lífsgæði og öryggi kvenna á flótta. Þá hafa aldrei fleiri styrkt samtökin með mánaðarlegu framlagi og aldrei áður hafa jafnmargir karlmenn tilheyrt þeim hópi,“ er haft eftir Hönnu Eiríksdóttur, starfandi framkvæmdastýru UN Women á Íslandi, í tilkynningu frá landsnefndinni.

„Það er því rík meðvitund og velvild landsmanna sem gerir UN Women á Íslandi kleift að senda hæsta framlagið fyrir árið 2016. Þessar gleðifregnir sýna svart á hvítu að almenningi hér á landi er svo sannarlega umhugað um hag og bága stöðu kvenna víða um heim og beita sér fyrir því að bæta stöðu kvenna og jafna hlut kynja, með því að styrkja verkefni UN Women með sínu mánaðarlegu framlagi. Fyrir þennan stuðning erum við starfsfólk og stjórn landsnefndarinnar gríðarlega þakklát,“ segir hún.

Ársskýrsla UN Women.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert