Íslendingar alltaf sólgnir í ís

Starfsmenn ísbúða virðast sammála um það að Íslendingar elski ísinn …
Starfsmenn ísbúða virðast sammála um það að Íslendingar elski ísinn sinn í hvaða veðri sem er. Ófeigur Lýðsson

Íslendingar elska ísinn sinn, í hvaða veðri sem er. Jafnvel í hríðarveðri virðist alltaf nóg að gera í ísbúðunum. Ísbúðareigendur og starfsfólk segjast því ekki kippa sér upp yfir lélegu sumarveðri, enda skipti það litlu fyrir söluna. Ást á ís sé ættgeng á Íslandi og hluti íslenskrar menningar.

Kynslóð eftir kynslóð

Fríða Einarsdóttir, verslunarstjóri hjá Brynjuís, segir alltaf mikið að gera en þó jafnist ekkert á við sólríka daga. Aðspurð segir hún ís vera hluta af íslenskri menningu: „Almáttugur já,“ segir hún, „ég var fyrst hissa þegar ég áttaði mig á hversu margir Íslendingar fá sér ís. Þetta er kynslóð eftir kynslóð. Þetta er einhvern veginn ættgengt!“ segir Fríða. Hún segir þetta vera hefð sem hafi byrjað hjá „ömmu og afa“ og svo haldið áfram hjá börnum þeirra, sem síðar hafi farið með börnin sín og svo framvegis. „Þetta er séríslenskt,“ segir Fríða.

Hún segir ís vera fyrir hvaða veður sem er. Henni þyki eftirminnilegt atvik þar sem lögreglan hafði tilkynnt öllum að vera innandyra í stormi.„Ég held að ég hafi sjaldan fengið jafn marga gesti og þann daginn í búðina. Allir komu og sögðu: „Er ég ekki fyrsti gesturinn?“ Nei, eiginlega ekki,“ hlær Fríða.

Gylfi Þór Valdimarsson, eigandi Valdísar, segir það vera hluta af …
Gylfi Þór Valdimarsson, eigandi Valdísar, segir það vera hluta af íslenskri menningu að vera sólginn í ís. Ófeigur Lýðsson

„Hardcore“ Íslendingar að ná sér í ánægjustund

Gylfi Þór Valdimarsson, eigandi ísbúðarinnar Valdísar, segir rigningu vissulega alltaf hafa einhver áhrif á íssölu en svo spili líka inn í að Íslendingar flýi alltaf land í slæmu sumarveðri. Það séu því frekar ferðamennirnir sem fái sér ís í vonda veðrinu.

Það megi þó ekki gleyma fastagestum, sem láti veðrið lítið á sig fá. „Það er ákveðinn hópur af fólki sem borðar ís allt árið og svo hópur af fólki sem borðar ís bara í góðu veðri,“ segir Gylfi. Það megi alltaf treysta á fyrri hópinn sem hann segir vera „hardcore Íslendinga sem eru að ná sér í ánægjustund“.

Gylfi segir það vera hluta af íslenskri menningu að vera sólginn í ís. Í öðrum löndum skipti veður höfuðmáli í íssölu og ísbúðir eigi það til að jafnvel loka vegna rigningar. Á Íslandi sé það „þessi stemning“ sem ráði ferðinni. „Það er bara þessi ísrúntur, maður fer á rúntinn, fær sér ís,“ segir Gylfi. Þegar maður „sitji einn í bílnum“ skipti rigningin litlu máli.

Fríða Einarsdóttir, verslunarstjóri hjá Brynjuís, segir ást á ís vera …
Fríða Einarsdóttir, verslunarstjóri hjá Brynjuís, segir ást á ís vera ættgenga. Ófeigur Lýðsson

Ísmenning á Íslandi

Telma Finnsdóttir, eigandi Ísbúðarinnar Huppu, segir veðrið ekki stoppa Íslendinga. „Íslendingar eru alltaf eins með það, þeir fá sér alltaf ís þótt það sé rigning,“ segir Telma. Þrátt fyrir að það sé meira að gera á sólríkum sumardegi þá gangi samt alltaf vel. „Það hefur alltaf verið þannig á Íslandi, Íslendingar eru ísfólk, elska ísinn sinn. Þetta er ákveðin menning hérna,“ segir Telma. „Það er stemning á Íslandi að fá sér ís.“

Kristmann Óskarsson, framkvæmdarstjóri Ísbúðarinnar í Vesturbænum, segir það skipta litlu hvort veður sé gott eða vont á Íslandi, það sé alltaf nóg að gera. Það sé séríslenskt enda sé ísbúðum „alls staðar“ lokað vegna veðurs nema hér. „Á Ítalíu selst ekki ís nema bara yfir sumarið og þú sérð ekki margar ísbúðir opnar um páskana á Spáni,“ segir Kristmann.

Aðspurður segir hann það vera vegna íssins: „Það er bara einhver ísmenning hérna sem stýrir því,“ segir Kristmann og bætir við: „Íslendingar vanda sig við ísinn.“ Hann segir viðskiptavini sína nærri eingöngu Íslendinga og þeir séu alls konar. „Bara þú og ég. Venjulegt fólk. Allir,“ segir Kristmann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert