Standa saman í blíðu og stríðu

Emil og Sif Atlabörn.
Emil og Sif Atlabörn.

Emil Atlason, knattspyrnumaður og bróðir Sifjar Atladóttur, er á leiðinni til Hollands og mun styðja stelpurnar það sem eftir lifir móts. „Fjölskyldan er að fara út og ég ætla mér að fara ásamt henni til Hollands,“ segir Emil sem hefur leikið 12 landsleiki fyrir U21 árs landslið Íslands ásamt því að vinna fjölda Íslands- og bikarmeistaratitla hér á landi.

Hann segir mikla spennu ríkja innan fjölskyldunnar fyrir mótinu í sumar.

„Það er mikil tilhlökkun hjá okkur fjölskyldunni en stelpurnar hafa nú þegar sýnt það og sannað hversu góðar þær eru. Nú er bara spurning um að njóta þess að spila og vinna Sviss og Austurríki,“ segir Emil og bætir við að hann hafi mikla trú á að stelpurnar komist langt í mótinu þrátt fyrir erfiða byrjun. „Ég held að þær vinni til einhverra verðlauna. Þær hafa alveg klárlega viljann og getuna í það.“

Sif er mikill sprellari

Þegar Emil er beðinn að rifja upp sögu af þeim systkinum segir hann eina sögu frá æskuárum þeirra standa upp úr.

„Ég man eftir einu atviki, þegar ég fór í klippingu til Sifjar á mínum yngri árum. Ég var kominn með mikið hár og var búinn að þurfa að fara í klippingu í dágóðan tíma, Sif bauðst til þess að klippa mig sem ég þáði. Ég get ekki sagt að ég hafi verið mjög ánægður með klippinguna því hún heppnaðist ekki betur en svo að ég leit út eins og Susan Boyle,“ segir Emil og bætir við að að margar skemmtilegar sögur séu til af Sif.

„Sif er mikill sprellari og dansari, ég man eftir því að þegar hún var yngri tók hún alltaf upp MTV myndböndin hjá Backstreet Boys. Hún horfði síðan á myndböndin og dansaði með, til þess eins að reyna að læra dansa hljómsveitarinnar,“ segir Emil.

Stuðningsnet systkinanna mjög sterkt

Sif hefur undanfarin ár leikið með sænska liðinu Kristinstad í Svíþjóð en á sama tíma hefur Emil leikið með liðum á Íslandi. Emil segir að þrátt fyrir að hafa búið í mismunandi löndum heyrist þau reglulega og gefi hvort öðru góð ráð. „Við systkinin tölum saman vikulega og höfum alltaf hjálpað hvort öðru, sama hvort það er í fótboltanum eða bara lífinu. Mér finnst alltaf rosalega þægilegt að tala við Sif enda erum við mjög lík.“

Hann segir Sif hafa stutt vel við bakið á honum í gegnum tíðina. „Stuðningsnet okkar systkinanna er mjög sterkt og við stöndum með hvort öðru í blíðu og stríðu.“

Spurður um helstu kosti Sifjar segir Emil að hún gefist aldrei upp. „Þegar Sif tekur að sér verkefni þá klárar hún það og gefst aldrei upp. Það skilar sér inn á völlinn enda er hún leikmaður sem fórnar sér fyrir liðið og er algjör leiðtogi inn á vellinum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert