Mæla með að allt sé uppi á borðum

Langflestar konur sem gefa egg hér landi velja að vera …
Langflestar konur sem gefa egg hér landi velja að vera opinn gjafi. AFP

Yfir 99 prósent þeirra kvenna sem gefa egg hér á landi velja það að vera opnir gjafar. Þau börn sem verða til úr eggjum þeirra, ef einhver verða, eiga rétt á fá að vita hver gjafinn er, eftir að þau hafa náð 18 ára aldri. „Það er eiginlega enginn sem vill hafa þetta á hinn veginn og eiginlega enginn sem vill þiggja það heldur,“ segir Ingunn Jónsdóttir, kvensjúkdómalæknir há IVF-klíníkinni. „Börnin geta þá leitað uppruna síns,“ bætir hún við.

Það er þó ekki bundið í lög hér á landi að börn, hafi þennan rétt, líkt og í Svíþjóð til að mynda. Í tvígang hefur hins vegar verið lögð fram þingsálykturtillaga þess eðlis á Alþingi, nú síðast í vor. Í greinagerð með tillögunni segir að nafnleynd kynfrumugjafa brjóti á rétti barna. Það sé mikilvægt að réttindi einstaklings sem getinn er með þessum hætti, séu höfð í forgrunni, og honum tryggður réttur með lögum til að fá upplýsingar um uppruna sinn.

Er það í samræmi við ákvæði í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem fram kemur að það sé réttur barns að fá vitneskju um foreldra sína.

Hreinskilni kemur í veg fyrir krísur

Að sögn Ingunnar hefur klíníkin það viðmið að ekki séu til börn eftir sama gjafann í fleiri en þremur fjölskyldum á Íslandi. Sumar konur hafa fengið að gefa fleiri egg, en þau hafa þá farið til útlendinga sem búa erlendis. Börn frá sama gjafa eru líffræðilega hálfsystkini og skyldleikinn því mikill. Ingunn segir það því alveg viðbúið í ekki stærra samfélagi en hér á Íslandi, að upp geti komið tilfelli þar sem skyldleiki komi á óvart við einhverjar aðstæður, síðar á lífsleiðinni.

Eitt af hverjum sex pörum á vandræðum með að geta …
Eitt af hverjum sex pörum á vandræðum með að geta barn með hefðbundum hætti. Ómar Óskarsson

„Það er alltaf umdeilanlegt hvaða tala er heppileg í þessu samhengi,“ segir Ingunn og vísar þar til þess viðmiðs að egg sama gjafa fari ekki til fleiri en þriggja fjölskyldna. „Maður getur auðvitað ímyndað sér að allar mögulegar aðstæður geti komið upp í svona litlu samfélagi. Það er líka þess vegna sem við viljum að gjafar ræði við félagsráðgjafa og búi sig undir þær aðstæður sem mögulega geti komið upp.“ En allar konur sem gefa og þiggja egg hjá klíníkinni hitta félagsráðgjafa áður en meðferð hefst.

„Almennu tilmælin eru þau að hafa allt uppi á borðum þannig fólk viti hvernig málum er háttað, sérstaklega börnin. Þannig það komi ekki neinum á óvart síðar á ævinni. Það getur komið í veg fyrir allskonar krísur.“

Hvernig er ferlið?

Allar konur á aldrinum 20 til 35 ára, sem ekki eru haldnar neinum þekktum arfgengum sjúkdómum, kynsjúkdómum né öðrum sjúkdómum sem geta aukið áhættu við eggjagjöf, koma til greina sem gjafar. Eftirspurn eftir gjafaeggjum er töluverð, enda eiga eitt af hverjum sex pörum í erfiðleikum með að geta barn með hefðbundnum hætti. Ekki er þó alltaf þörf á eggjagjöf þó erfiðleikar séu til staðar, enda geta vandamálin verið margþætt.

Fyrsta skref er að hafa samband við hjúkrunarfræðing hjá klínikinni sem skráir niður grunnupplýsingar og veitir jafnframt upplýsingar um eggjagjöfina. Í framhaldinu er kona bókuð í viðtal og skoðun hjá lækni þar sem ítarlega er farið yfir meðferðina og gerð skoðun. Í kjölfarið tekur við viðtal hjá félagsráðgjafa.

Ekki er nein eftirfylgni með þeim konum sem gefa egg. …
Ekki er nein eftirfylgni með þeim konum sem gefa egg. Hvorki líkamlegri, né andlegri heilsu. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fjórar vikur líða frá upphafi lyfjameðferðar fram að eggheimtu. Fyrst er byrjað á því að taka lyf sem draga úr starfsemi eggjastokkanna til að koma í veg fyrir að egglos verði sjálfkrafa. Síðan er gefið örvunarlyf í sprautuformi daglega í 10 til 12 daga, en það eykur vöxt og þroska eggjastokkum.

Algengustu aukaverkanir lyfjanna eru, þyngdarbreytingar, höfuðverkur, skapbreytingar. þreyta. marblettir, verkir, roði, bólga og kláði á stungustað. Kona sem gefur egg þarf að gera ráð fyrir því að vera frá vinnu í einn til þrjá daga eftir eggheimtu.

Tekið á því ef „rauð flögg“ koma upp

Fullyrt er á heimasíðu IVF-klíníkurinnar að engar rannsóknir hafi  sýnt fram á að meðferð vegna gjafaeggja hafi áhrif á frjósemi eða geta aukið hætti á krabbameini. Það er þó engin eftirfylgni með heilsufari þeirra kvenna sem gefa egg, að sögn Ingunnar.

„Við hittum þær einu sinni tveimur eða þremur vikum eftir að þær gefa egg og gerum skoðun til að sjá hvort eggjastokkarnir hafi jafnað sig og þær séu komnar á rétt ról. Það er langoftast þannig sem betur fer. Þær fá yfirleitt blæðingar um tveimur vikum eftir eggjagjöfina og þá er allt komið í eðlilegt horf ef ekkert hefur farið úrskeiðis. Svo eru þær í raun bara útskrifaðar,“ segir Ingunn.

Í grein sem birtist nýlega í New York Times er hugsanlegri áhættu af meðferð vegna eggheimtu velt upp. Þá aðallega hvort sú mikla hormónagjöf sem fylgir geti valdið krabbameini þegar fram líða stundir.

Allar konur á aldrinum 25 til 30 ára og eru …
Allar konur á aldrinum 25 til 30 ára og eru ekki haldnar arfgengum sjúkdómum eða kynsjúkdómum geta gefið egg. mbl.is/Árni Sæberg

Ingunn segir þetta hafa verið rannsakað töluvert og því ætti að vera hægt að segja til um það með nokkurri vissu að slæm langtímaáhrif séu ekki fyrir hendi. „Þetta er ekki talið hafa nein langtímaáhrif. Þetta er nákvæmlega sama hormónagjöfin, og minni ef eitthvað er, og þær konur sem fara í glasafrjóvgun ganga í gegnum. Það er ekki talið að þessi hormónagjöf hafi nein slæm langtímaáhrif.“

Hvað varðar andlega heilsu kenna sem gefa egg, segir Ingunn heldur ekki fylgst sérstaklega með henni, en líkt og áður sagði hitta þær allar félagsráðgjafa í upphafi meðferðar. Þar er andleg heilsa metin.  „Við metum andlega heilsu fyrirfram. Ef það eru einhver rauð flögg þar, þá tökum við á því. Sumar konur eru kannski ekki í stakk búnar til að gefa egg, af einhverjum ástæðum. Við höfum hins vegar engar eftirfylgni með því eftir á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert