Neituðu báðir að hafa ekið bílnum

Lögreglan hafði að vanda í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan hafði að vanda í nógu að snúast í nótt. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lögreglu barst um kl. 2 í nótt tilkynning um bíl sem hafði verið skilinn eftir á Nýbýlavegi. Þegar lögreglumenn komu á vettvang voru tveir menn við bílinn. Þeir eru grunaðir um ölvun við akstur en báðir neituðu því að hafa ekið bílnum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni. 

Þeir voru handteknir og vistaðir í fangaklefa.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði að vanda í nógu að snúast í nótt. 

Rétt eftir miðnætti barst tilkynning um eld að Laufengi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu reyndist enginn eldur vera á staðnum en pottur hafði gleymst á hellu og mikill reykur var í íbúðinni af þeim sökum.

Rúmlega 1 í nótt var svo tilkynnt um mann að selja fíkniefni á Laugavegi. Hann var handtekinn nokkru síðar með ætluð fíkniefni meðferðis.

 Þá barst tilkynning um mann að brjóta rúður í bifreiðum í miðbænum í nótt. Sá var handtekinn og vistaður í fangaklefa.

 Klukkan hálf fimm í nótt var tilkynnt um slagsmál í miðbænum. Í þeim rotaðist einn maður og var sá fluttur á slysadeild Landspítalans til aðhlynningar. Lögreglan segist hafa handtekið gerendur á vettvangi og vistað þá í fangaklefa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert