Bjó til torfærubraut á Egilsstöðum

ljósmynd/UMFÍ

Mikill undirbúningur hefur staðið yfir í sumar fyrir Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Meðal annars hefur verið útbúin torfærubraut í Selskógi, en keppt verður í fjallahjólreiðum á mótinu.

„Þetta hefur verið mikil vinna en virkilega gaman. Við höfum grisjað í gegnum Selskóg og búið til hjólabrautir. Þetta eru ekki eiginlegir slóðar heldur alvöru torfærur fyrir fjallahjólafólk,“ er haft eftir Haddi Áslaugarsyni, sérgreinarstjóra í fjallahjólreiðum á mótinu, í frétt UMFÍ.

Haddur hefur ásamt fleirum sjálfboðaliðum unnið að því hörðum höndum í allt sumar að gera klárt fyrir Unglingalandsmótið, meðal annars smíðað spjöld til að merkja hjólabrautirnar í Selskógi. Brautirnar voru prufukeyrðar á Sumarhátíð Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) um miðjan mánuðinn og gekk það vel að því er fram kemur í fréttinni.

Haddur segir að göngustígarnir í skóginum verði nýttir í keppni í fjallahjólreiðum auk þess sem farið verði í torfæruna. Börn og ungmenni á Egilsstöðum hafa hjálpað til við verkið, að sögn Hadds. „Þau hafa hjólað á brautunum, bælt grasið og sagt okkur hvað megi gera betur,“ er haft eftir Haddi.

Skráning er í fullum gangi á Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Mótshaldari er UÍA. Auk fjallahjólreiða verður keppt í 23 öðrum greinum. 

ljósmynd/UMFÍ

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert