Breytt útlit Landssímareitsins

Landssímareiturinn séð frá Ingólfstorgi.
Landssímareiturinn séð frá Ingólfstorgi. Tölvu­mynd/​THG arki­tekt­ar

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur hefur samþykkt að auglýsa umsókn THG arkitekta að breytingu á deiliskipulagi Landssímareits við Austurvöll í Reykjavík. Talsverðar breytingar eru á útlitshönnun húsanna frá fyrri stigum eins og hér er sýnt á meðfylgjandi myndum.

Kynningin gefur til kynna hvernig fyrirhugað Iceland Parliament Hotel mun líta út. Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að hótelið yrði opnað næsta vor. Nú stefnir í að hótelið verði opnað rúmu ári síðar.

Reiturinn heitir eftir gamla Landssímahúsinu. Hann afmarkast af Thorvaldsensstræti, Kirkjustræti, Aðalstræti og Vallarstræti. Ásamt því að snúa að Austurvelli liggur reiturinn að Ingólfstorgi og Víkurgarði. Bent skal á að stórhýsi á Aðalstræti 9 er ekki hluti af reitnum.

Á Landssímareitnum eru sögulegar byggingar. Samkvæmt deiliskipulagslýsingu var Thorvaldsensstræti 2 til dæmis byggt 1878 og Thorvaldsensstræti 4, gamla Landssímahúsið, byggt 1931. Talið sé að kirkja hafi risið í Víkurgarði fljótlega eftir kristnitöku. Við kirkjuna hafi verið grafreitur sem notaður var um 800 ára skeið.

Svona mun Lands­s­íma­húsið líta út eft­ir breyt­ingu, sam­kvæmt nýj­ustu til­lögu …
Svona mun Lands­s­íma­húsið líta út eft­ir breyt­ingu, sam­kvæmt nýj­ustu til­lögu arki­tekta. Tölvu­mynd/​THG arki­tekt­ar
Samkvæmt eldri teikningum var gert ráð fyrir að Landssímahúsið liti …
Samkvæmt eldri teikningum var gert ráð fyrir að Landssímahúsið liti svona út. Á nýrri mynd er meðal annars búið að breyta hornhúsinu og tengihúsinu sem er hvítt á þessari mynd. Tölvu­mynd/​THG arki­tekt­ar

Sýni Kvosinni virðingu

Freyr Frostason, arkitekt hjá THG arkitektum, hefur unnið að hönnun reitsins í 18 mánuði.

Hann segir hönnunina fylgja samþykktu deiliskipulagi. Gerðar hafi verið smávægilegar breytingar.

„Við viljum láta nýbyggingar falla vel inn í eldri byggð. Og bera virðingu fyrir umhverfinu og Kvosinni. Við fylgjum deiliskipulagi hvað varðar byggingarmagn, form, hæðir og jafnvel liti. Breytingarnar eru meira tæknilegs eðlis. Þetta er sambland af eldri byggð, friðuðum húsum og nýbyggingum. Það verða gerðar litlar breytingar á útliti Landssímahússins. Það þarf hins vegar að gera við steinklæðningu á húsinu og verður hún hugsanlega sett í ljósari lit. Samkvæmt deiliskipulagi má hækka þakið. Risinu verður lyft eins og gert var á Hótel Borg á sínum tíma. Á jarðhæð verður veitingastaður sem snýr að Austurvelli.“

Minnir á Alþingishúsið

Freyr segir aðspurður að milli Landssímahússins og nýbygginga við Kirkjustræti verði gafl af viðbyggingu frá árinu 1967, sem að öðru leyti verður rifin. Viðbyggingin hefur húsnúmerið Thorvaldsensstræti 6. Á jarðhæð nýbyggingar í Kirkjustræti hefur verið teiknuð steinklæðning sem minnir á steinhleðslurnar í Alþingishúsinu.

„Þakform og hæð nýbygginga við Kirkjustræti tekur mið af eldri byggingum við syðri enda götunnar. Jarðhæðin verður opin í báðar áttir, að gamla Víkurgarðinum og Austurvelli. Þar verður veitingastaður, kaffihús og verslanir,“ segir Freyr.

Á þaki nýbyggingar, sem kemur í stað viðbyggingarinnar frá 1967, verða tvær inndregnar hæðir. „Við sjáum fyrir okkur létta byggingu með stórum glerflötum svo gestir geti notið útsýnisins. Það skapar léttleika fyrir reitinn og sjónræn áhrif byggingarinnar eru lágmörkuð,“ segir Freyr.

Séð yfir Víkurgarð (sem einnig er nefndur Fógetagarður). Talsverðar breytingar …
Séð yfir Víkurgarð (sem einnig er nefndur Fógetagarður). Talsverðar breytingar eru á útliti á þessari nýju teikningu miðað við eldra útlit og þá sérstaklega á þakhýsum húsanna. Tölvu­mynd/​THG arki­tekt­ar
Fyrri teikningar, séð yfir Víkurgarðinn.
Fyrri teikningar, séð yfir Víkurgarðinn. Tölvu­mynd/​THG arki­tekt­ar

Norðan við fyrirhugaða glerbyggingu er skrifstofuhús, Aðalstræti 11, sem er hæsta byggingin á reitnum. Freyr segir að skv. deiliskipulagi eigi þar að vera inndregin hæð. Teiknuð hafi verið létt bygging með mænisþaki. Gert sé ráð fyrir svítu á hæðinni, með svölum allan hringinn.

Við Ingólfstorg verða nokkrar byggingar sem tilheyra reitnum. Tvær þeirra, Aðalstræti 7 og Vallarstræti 4, eru friðuð hús. Þau verða gerð upp og verður Vallarstræti 4, sem er rauðmálað og norðan við Austurstræti 11, fært í upprunalegt horf. Á jarðhæð þessara húsa verður verslun og þjónusta. Á milli þessara húsa kemur nýbygging, Vallarstræti 2, í anda eldri húsa.

Freyr segir gamla Kvennaskólann verða færðan í upprunalega mynd. „Húsið hefur nú aðeins tvær götuhliðar. Tvær hliðar voru fjarlægðar og eru hluti af sal NASA. Við ætlum að endurbyggja þessar hliðar þannig að húsið standi sjálfstætt með fjórum hliðum. Það verður glerbygging á milli, sem slítur húsið frá viðbyggingu. Fær meiri reisn eins og hæfir.“

Að sögn Freys verður Thorvaldsensstræti 2, sem nú síðast hýsti skemmtistaðinn NASA, endurbyggt. Salurinn verði færður í mynd gamla Sjálfstæðissalarins, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var þar. NASA verði áfram tónleikasalur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert