Fólk sækir í nábrækurnar

Helsti ferðamannastaðurinn. Sigurður Atlason, eigandi Galdrasafnsins á Hólmavík, við nábrækur.
Helsti ferðamannastaðurinn. Sigurður Atlason, eigandi Galdrasafnsins á Hólmavík, við nábrækur. Ljósmynd/Galdrasafnið

„Það sem dregur fólk aðallega að safninu er sagan. Það vinsælasta hér eru nábrækurnar,“ segir Sigurður Atlason, eigandi Galdrasafnsins á Hólmavík, en safnið varð á dögunum 17 ára og er fyrir löngu orðinn fastur punktur í tilveru Hólmvíkinga sem helsti ferðamannastaður bæjarins.

„Nábrækur eru aðferð til að verða sér úti um aukapening. Þá þarf að gera samning við mann um að maður megi flá af honum skinnið eftir að hann er dauður. Geri maður það og fylgi kúnstarinnar reglum getur maður síðan klæðst skinninu sem buxum og eru þær þeim eiginleikum gæddar að maður finnur alltaf peninga í þeim,“ segir Sigurður.

Hann segir mikla breytingu hafa orðið á safninu í gegnum tíðina. „Þegar hrunið varð 2008 þá sá maður fram á að það yrði skorið allhressilega niður til menningarmála. Ég hugsa með mér að ég yrði að gera eitthvað í þessu.“ Hann opnaði því kaffihús í húsnæði Galdrasafnsins. Síðan þá hefur kaffihúsið undið upp á sig og er í dag orðið að stöndugum veitingastað. „Ef við hefðum ekki þennan veitingastað værum við í óskaplegum vandræðum að halda safninu opnu,“ segir Sigurður en hann segir veitingastaðinn þann eina á stóru svæði kringum Hólmavík sem opinn sé allan ársins hring.

Kisi hjálpar til

Franska listakonan Gini Cormerais með Sigurði Atlasyni, eiganda Galdrasafnsins á …
Franska listakonan Gini Cormerais með Sigurði Atlasyni, eiganda Galdrasafnsins á Hólmavík.


Sigurður hefur notið liðsinnis kattar síns, hins mikilfenglega Hippopotamusar, við að vekja athygli á safninu. Hippó sem er á 12. ári er blanda heimiliskattar og persnesks kattar og leit gjarnan við á safninu á hverjum degi gestum til mikillar ánægju. Hippó vakti töluverða athygli fyrir nokkrum árum er hann hóf söfnun til styrktar Kattholti. „Ég las í Morgunblaðinu að Kattholt glímdi við alvarlegan fjárhagsvanda. Hippó ákvað að það þyrfti eitthvað að gera í þessu. Hann sagðist ekki geta umborið það að aðrir kettir færu svangir í háttinn.“ Úr varð að Sigurður lét gera póstkort af kettinum. Það reyndist lítið mál að finna flottar myndir af honum enda sígilt myndefni á safninu. „Þessi mynd var tekin af 11 ára stúlku frá Stokkhólmi en bakhliðin af 27 ára stelpu í Berlín,“ segir Sigurður og réttir fram eina eintakið af póstkortinu sem ekki var selt. „Þetta rauk út og hann safnaði fullt af peningum,“ segir Sigurður. Kortin voru bæði seld á safninu en einnig á netinu og segir Sigurður mörg kort hafa verið seld úr landi og margir gestir spyrji sérstaklega um hann þegar þeir koma á safnið. „Eftir að hann varð stjarna er hann orðinn hlédrægari,“ segir Sigurður en Hippó var vant við látinn er blaðamann bar að garði.

Féll fyrir Hólmavík

Gini Cormerais er frönsk listakona. Hún kom hingað til lands árið 2015 við vinnslu útskriftarverkefnis og féll fyrir Hólmavík og einkum Galdrasafninu.

„Við komum hérna um miðjan vetur til að líta á setrið. Ég spurði Sigga hvort hann vissi um eitthvert gistihús í bænum, en hann bauð okkur að gista hjá sér,“ segir Gini. Það varð upphafið að mikilli vináttu en síðan þá hefur hún unnið á Galdrasafninu öll sumur, en fer til Frakklands á veturna.

Nú stendur ljósmyndasýning hennar, Hide Your Fires, yfir á safninu en nafnið er tilvitnun í Macbeth. Á sýningunni getur að líta ljósmyndir sem teknar eru í nágrenni Hólmavíkur og eru margar þeirra af gluggum. Gluggarnir tilheyra í raun vestfirskum kirkjum, útskýrir hún, en með því að beita myndavélinni rétt nær hún að láta líta út sem gluggarnir svífi um í guðsgrænni náttúrunni án þess að kirkjurnar sjáist nokkuð. Sýningin stendur til 15. september nk.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert