Starfsemin ekki komin í gang

Starfsemi kísilmálmsmiðju United Silicon fer ekki aftur í gang fyrr …
Starfsemi kísilmálmsmiðju United Silicon fer ekki aftur í gang fyrr en í lok vikunnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Starfsemi kísilmálmsmiðju United Silicon í Helguvík er ekki enn farin í gang. Endurhönnun á töppunarpalli og sumarleyfi hafa tafið framkvæmdir. Að sögn Kristleifs Andréssonar, yfirmanns öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon, er vonast til að ofninn fari í gang á fimmtudag.  

„Það er ekkert komið af stað og verður það varla fyrr en á fimmtudag,“ segir Kristleifur í samtali við mbl.is. Ofn­inn hef­ur ekki verið ræst­ur aft­ur eft­ir að 1.600 gráðu heit­ur kís­il­málm­ur lak niður á gólf þegar ker sem verið var að tappa á yf­ir­fyllt­ist aðfaranótt mánu­dags í síðustu viku.

„Það er eins og að grafa eftir gulli að fá iðnaðarmenn til vinnu núna,“ segir Kristleifur en illa gengur að fá smíðaða þá hluti sem vantar. Aðspurður hvort meiri skemmdir hafi orðið en leit út fyrir í upphafi segir Kristleifur svo ekki vera. „Fyrst og fremst er það þessi endurhönnun á töppunarpallinum sem er stærra verkefni en planað var í upphafi,“ segir Kristleifur.

„Við erum að vonast til þess að setja ofninn í gang í lok vikunnar, svo tekur sólarhring þangað til fyrsti málmurinn kemur út úr ofninum eftir að hann fer í gang,“ segir Kristleifur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert