Býr til líkjör úr íslenskri mjólk

Pétur hefur verið að þróa íslenskan mjólkurlíkjör sem unninn er …
Pétur hefur verið að þróa íslenskan mjólkurlíkjör sem unninn er úr rjómablandi og alkóhóli úr mysu í sjö ár og er frumgerð vörunnar nú tilbúin. Líkjörinn hefur hlotið þriggja milljóna króna styrk til framhaldsvinnu. mbl.is/Golli

„Ég er bara búinn að vera að dunda mér við þetta í eldhúsinu heima,“ segir Pétur Pétursson, en hann hefur verið að þróa íslenskan mjólkurlíkjör sem unninn er úr rjómablandi og alkóhóli úr mysu.

Pétur er mjólkurtæknifræðingur að mennt og hefur unnið ýmis störf innan mjólkuriðnaðarins, meðal annars sinnt ostagerð, ísgerð og smjörgerð.

„Hugmyndin kviknaði fyrir ellefu árum, en síðustu sjö árin hef ég verið að þróa líkjörinn með hléum. Mér fannst þetta vera sniðugt og öðruvísi, en frumgerðin var unnin heima í eldhúsi þar sem fjölskyldan, vinir og vinnufélagar voru fengin til að smakka. Síðustu ár hefur hvert tækifæri verið nýtt til að kynna vöruna, fá viðbrögð og endurbæta bragð og áferð. Þegar það varð ljóst hve mikill áhugi var á vörunni var farið í að útfæra uppskriftina enn frekar,“ segir Pétur, en frumgerð vörunnar er nú tilbúin.

Líkjörinn hefur nú hlotið styrk frá Auðhumlu og Matís til framhaldsvinnu vegna prófana og vinnsluferla og segist Pétur vera mjög þakklátur fyrir styrkinn.

Töluvert mikið nýnæmi

„Það sem kom mér mest á óvart er hversu flókið ferli það er að búa til þennan drykk,“ segir Pétur og bætir við að mikil tækni felist í framleiðslunni. „Vinnsluferlið er ekki eitthvað sem þú leitar bara að á netinu, það eru mikil fræði á bak við þetta og flókin vinnslutæki.“

Pétur segir verkefnið vera töluvert mikið nýnæmi þar sem aldrei áður hafi verið framleiddur áfengur drykkur úr íslenskri mjólk, né mysa verið nýtt við gerð líkjörs.

„Það sem var mér mikilvægast þegar ég byrjaði var að einbeitingin væri á mjólkina og að nýta það sem fer oft til spillis, s.s. mysu. Það er því verið að sporna við sóun matvæla og minnka umhverfismengun til að ná fram aukinni verðmætasköpun,“ segir hann og bætir við að líkjörinn sé mjög bragðgóður og alíslenskur drykkur.

„Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og ég er mjög þakklátur öllum sem hafa stutt við bakið á mér öll þessi ár. Ef þú ert með eitthvað svona í hausnum þá þýðir ekkert að gefast upp.“

Þriggja milljóna króna styrkur

Í vor gerðu Auðhumla og Matís samning um verkefnið Mjólk í mörgum myndum þar sem veittir eru styrkir til frumkvöðlastarfs þar sem mjólk kemur við sögu sem hráefni.

Á fundi stjórnar Auðhumlu 29. júní sl. var ákveðið að veita að þessu sinni þrjá styrki.

Biobú og fleiri með verkefnið Heillandi máttur lífrænnar mysu og Pétur Pétursson með verkefnið íslenskur mjólkurlíkjör fengu þrjár milljónir hvor aðili í styrk. Þriðja verkefnið er Broddur byggir upp sem Birna G. Ásbjörnsdóttir og Guðmundur Ármann Pétursson standa fyrir en þau hlutu 500 þúsund krónur í styrk.

Matís mun síðan annast utanumhald verkefnanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert