Kindurnar lausar og heilsast vel

Ær og lamb hennar eru nú laus úr klettabeltinu og …
Ær og lamb hennar eru nú laus úr klettabeltinu og við góða heilsu. Ljósmynd/Skúli Gunnar Sigfússon

Ær og lamb hennar sem festust í klettabelti hjá Reynivöllum fyrr í þessum mánuði eru nú laus úr prísundinni. „Þær fóru nú bara sjálfar niður,“ segir Björn Þorbergsson, bóndi á Gerði og eigandi kindanna. Aðeins einn bauð sig fram til aðstoðar við að ná kindunum úr klettabeltinu.

„Yfirleitt fara þær niður, lifandi eða dauðar og þær fóru nú lifandi þessar,“ segir Björn í samtali við mbl.is. Að sögn Björns náðu þær að stökkva yfir smá skoru í klettunum og eftir það varð þeim leiðin greiðari niður.

Einn bauð fram aðstoð

Aðeins einn bauð fram aðstoð sína við að bjarga kindunum en ekki varð úr þeim leiðangri þar sem sá aðili veiktist. Björn furðar sig örlítið á því hvers vegna það voru ekki fleiri sem buðu fram hjálp. „Nú er fólk mikið að fara til fjalla og hefur gaman að útiveru, ef þetta hefði verið fyrir rúmlega 20 árum hefði maður líklega þurft að neita mörgum,“ segir Björn.

„Það getur verið gaman að fara í svona túra þegar vel tekst til,“ segir Björn. Hann segir þetta til dæmis vera kjörið tækifæri fyrir aðila sem eru í björgunarsveitum að æfa sig. „Kindurnar eru bara í þokkalega góðu standi, eru á beit núna,“ segir Björn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert