Kökur sem gleðja og kalla fram bros

Karen saumar og undirbýr kökugerð í hobbíherberginu sínu.
Karen saumar og undirbýr kökugerð í hobbíherberginu sínu. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Karen Kjartansdóttir, sem er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir að mennt, vinnur á næturvöktum á Landakoti og á frí aðra hverja viku. Þá situr hún ekki auðum höndum heldur bakar kökur, sem hún skreytir af hjartans lyst og gefur stundum samstarfsfólki sínu að smakka.

Kökurnar segir hún þó aðallega gerðar fyrir barnabörnin sín, sem séu himinlifandi að bjóða upp á köngulóarmanninn og aðrar eftirlætis ævintýrahetjur sínar í afmælisveislum.

„Fyrstu kökurnar, sem ég kom færandi hendi með í vinnuna, voru alls ekki fallegar. Þær áttu að vera eins og uglur, en ein samstarfskona mín, afskaplega hreinskilin manneskja, spurði hvort þetta væru mauraætur,“ rifjar Karen Kjartansdóttir upp og skellihlær.
Veisluborðin lifna við með kökum Karenar, sem bakar og skreytir …
Veisluborðin lifna við með kökum Karenar, sem bakar og skreytir fyrir alls konar veislur sem fjölskyldan heldur. Eftirspurnin er sérstaklega mikil fyrir afmæli barnabarnanna. að

Uglur eða mauraætur, gilti einu, kökurnar voru borðaðar með bestu lyst. Æfingin skapar meistarann og hún lét ekki slá sig út af laginu. Núna, fjórum árum síðar, velkist ábyggilega enginn í vafa um hvaða glassúrfígúrur prýða stórar sem smáar kökur Karenar. Fíngerð og frumleg mynstrin á öðrum eru svo kapítuli út af fyrir sig.

Karen er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir að mennt í 80% starfi á næturvöktum á Landakoti. Hún á frí aðra hverja viku og veit þá fátt skemmtilegra en að dunda sér við kökugerð í eldhúsinu heima hjá sér eða bútasaum í sauma- og hobbíherberginu sínu. Þar segir hún flæða upp úr öllum skúffum og skápum. Nýjasta handverkið er hvít ballettmús í tjullpilsi og með kórónu sem Karen saumaði til að gleðja litla sonardóttur sína.

Aðallega fyrir barnabörnin

Barnabörn Karenar, f.v. Páll Haukur, Sölvi Már og Lísa Vilborg, …
Barnabörn Karenar, f.v. Páll Haukur, Sölvi Már og Lísa Vilborg, með tuskudýr sem amma þeirra saumaði handa þeim. mbl.is/Hanna


„Kökugerðin er bara tómstundagaman til að gera lífið skemmtilegra, kalla fram bros og gleðja fólk, aðallega þó barnabörnin mín,“ segir Karen, sem ennþá gæðir félögum sínum á næturvaktinni annað slagið á kökunum sínum. Og fær að vonum bros að launum. „Stundum prófa ég kökurnar á þeim, ef svo má segja, baka kannski úr mismunandi deigi, og kalla eftir umsögn.“

Karen frábiður sér að vera kölluð kökugerðarmeistari, eða konditor eins og það heitir á fínu máli. Listamaður? Nei, ekki heldur. Í rauninni leggur hún ofuráherslu á að hún sé bara eftirherma. Föndrari. Kökurnar sem hún baki og skreyti séu ekki hennar hugarsmíð, heldur eigi þær sér allar fyrirmyndir einhvers staðar á óravíddum netsins.

Veisluborðin lifna við með kökum Karenar, sem bakar og skreytir …
Veisluborðin lifna við með kökum Karenar, sem bakar og skreytir fyrir alls konar veislur sem fjölskyldan heldur.


„Eins og flestir vita er hægt að læra allt mögulegt á netinu, þar eru heilu námskeiðin í boði. Ekki þarf annað en að gúgla „decorated sugar cookies“ og þá er maður kominn inn í heim snillinga í kökugerðarlist. Uppskriftir, aðferðir og hugmyndir eru þar á hverju strái,“ segir Karen. „Ég hef ekki tærnar þar sem þessir listamenn hafa hælana,“ bætir hún við.

Að þessu sögðu er ljóst að Karen er lítið gefin fyrir að hreykja sér og jafnframt mikið í mun að eigna sér ekki höfundarverk annarra. Á tali hennar mætti ætla að kökurnar baki og skreyti sig sjálfar. Svo er vitaskuld ei.

Kveikjan að þessu viðtali var myndir af girnilegum og listilega útfærðum smáum og stórum kökum á Facebook-síðu hennar, Kökur Karenar. Á Facebook leynist nefnilega margur listamaðurinn þegar grannt er skoðað. Og svo er Karen líka á Instagram og vistar myndir, uppskriftir og annað kökutengt á Pinterest. Algjörlega með tæknina á sínu valdi.

Stemningin skiptir máli

Poppí, drotting lukkutröllanna.
Poppí, drotting lukkutröllanna.


„Ein af stelpunum í vinnunni tók upp á því að birta myndir af kökunum mínum á lokaðri Facebook-síðu fyrir eina deildina á spítalanum. Í kjölfarið setti ég mína eigin síðu í loftið. Einungis mér til gamans og skemmtunar, til að læra af mistökunum og sjá hvort mér fari eitthvað fram. Kökurnar eru hvorki til sölu né baka ég eftir pöntun, enda fyndist mér eyðileggja ánægjuna að baka undir pressu.“

Henni finnst mest gaman að baka fyrir jólin og afmæli barnabarnanna, sem yfirleitt óski sér að fá eftirlætis ævintýrahetjur sínar, t.d. köngulóarmanninn og einhverja stjörnustríðshetju, greyptar í smákökur sem og mótaðar í stórar þrívíðar kökur. Svo hefur hún verið beðin um hvolpakökur og alls konar fígúrur.

Veisluborðin lifna við með kökum Karenar, sem bakar og skreytir …
Veisluborðin lifna við með kökum Karenar, sem bakar og skreytir fyrir alls konar veislur sem fjölskyldan heldur.


„Krakkarnir eru himinlifandi þegar amma mætir í afmælið með allar þessar kökur. Stundum finnst mér ég vera svolítið eins og Amma klikk,“ segir Karen brosandi. Henni finnst mikilvægt að búa til góða stemningu við undirbúninginn og baksturinn sjálfan, hafa góða tónlist í tækinu og helst barnabörnin allt um kring. „Ég baka ekki á hverjum degi í frívikunni minni. Þær vikur skipulegg ég með góðum fyrirvara, annaðhvort sauma ég eða baka, nema hvort tveggja sé,“ segir Karen.

Þolinmæði og þrautseigja

Hún gefur lítið út á hversu flink hún er orðin í þessari ævintýralegu kökugerð. Þolinmæði og þrautseigja, áréttar hún. Viðurkennir þó að töluverð kúnst sé að búa til glassúrinn og kökugerðin í heild sé á stundum býsna tímafrek.

Köngulóarmaðurinn er meðal veislugesta.
Köngulóarmaðurinn er meðal veislugesta.


„Fyrst geri ég þykkan glassúr úr gerilsneyddri eggjahvítu, flórsykri og yfirleitt nokkrum sítrónudropum til bragðbætis. Gæta verður þess að þynna glassúrinn ekki of mikið svo hann renni ekki út af kökunum,“ segir Karen og bætir við að því litríkari sem kökurnar séu þeim mun tímafrekari sé undirbúningsvinnan. Í hvolpakökurnar fyrrnefndu, óskaafmæliskökur eins barnabarnsins, hafi hún til dæmis notað fimmtán liti.

Spurð um kökudeigið segist hún nota ósaltað smjör, sykur, egg, hveiti, lyftiduft, vanilludropa og salt. Vegna höfundarréttarlaga vill hún ekki gefa upp nákvæma uppskrift, en bendir á bókina Ultimate cookies eftir Juliu M. Usher og ógrynni uppskrifta sem hægt sé að fara eftir á Youtube og víðar.

Veisluborðin lifna við með kökum Karenar, sem bakar og skreytir …
Veisluborðin lifna við með kökum Karenar, sem bakar og skreytir fyrir alls konar veislur sem fjölskyldan heldur.


Prófílmyndin á Facebook-síðunni hennar er lógó með flúruðum stöfum, Kökur Karenar – kökur sem gleðja. Það er einmitt tilgangur Karenar með öllum þessum bakstri og skreytingum fyrir öll möguleg tilefni – eða engin.

Veisluborðin lifna við með kökum Karenar, sem bakar og skreytir …
Veisluborðin lifna við með kökum Karenar, sem bakar og skreytir fyrir alls konar veislur sem fjölskyldan heldur.
Veisluborðin lifna við með kökum Karenar, sem bakar og skreytir …
Veisluborðin lifna við með kökum Karenar, sem bakar og skreytir fyrir alls konar veislur sem fjölskyldan heldur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert