Minigolfvöllur vígður í Guðmundarlundi

Nýr minigolfvöllur var vígður í Guðmundarlundi í blíðskaparveðri í gær.
Nýr minigolfvöllur var vígður í Guðmundarlundi í blíðskaparveðri í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Nýr minigolfvöllur var tekinn í notkun í Guðmundarlundi í Kópavogi á sumarhátíð eldri borgara í gær. Hugmyndaríkur Kópavogsbúi benti á að tilvalið væri að setja upp minigolfvöll í lundinum og var tillagan samþykkt. Þetta er ein af tillögunum sem voru kosnar í lýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur sem hlýtur kosningu og Kópavogsbær hrindir í framkvæmd.

Allir geta komið í minigolf ef þeir taka með sér golfkylfu og bolta en engin útleiga á búnaði verður á svæðinu. 

Alla jafna leggja margir leið sína í Guðmundarlund en þar er meðal annars hægt að leigja aðstöðu til að grilla. „Guðmundarlundur er mjög vinsæll. Við höfum ívið meiri tekjur af útleigunni í sumar en síðasta sumar,“ segir Bragi Michaelsson, umsjónarmaður Guðmundarlundar og fyrrverandi formaður Skógræktarfélags Kópavogs.

Hann telur að um 140 samkomur hafi verið í Guðmundarlundi og grillaðstaðan verið leigð út frá maí og til dagsins í dag. Leiga á grillaðstöðunni fyrir allt að 40 manns kostar sjö þúsund krónur og hækkar eftir því sem hóparnir verða stærri.   

Í haust er gert ráð fyrir að klárað verði að byggja húsnæðið í Guðmundarlundi sem hafist var handa við árið 2009. Í því verður meðal annars fullbúið eldhús og salur sem getur tekið allt að 100 manns. „Húsið getur nýst fyrir skólahópa og útikennslu svo fátt sé nefnt,“ segir Bragi. 

Húsnæðið er í eigu Kópavogsbæjar og Skógræktarfélags Garðabæjar og skiptist eignarhaldið 55% á móti 45% hlut Skógræktarfélagsins. 

Eldri borgarar í Kópavogi sóttu Guðmundarlund heim og glatt var …
Eldri borgarar í Kópavogi sóttu Guðmundarlund heim og glatt var á hjalla. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert