Sjálfvirku hliðin flýta mikið fyrir

Jón Pétur Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum hleypir fyrsta farþeganum í …
Jón Pétur Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum hleypir fyrsta farþeganum í gegnum sjálfvirk landamærahlið í síðasta mánuði. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

Ný sjálfvirk landamærahlið sem tekin voru í notkun um miðjan síðasta mánuð á Keflavíkurflugvelli hafa gefið mjög góða raun. Komu- og brottfararfarþegar á leið til og frá ríkjum utan Schengen-svæðisins þurfa að fara í gegnum vegabréfaeftirlit og býðst ríkisborgurum Evrópusambandsins og EES-ríkja eldri en 18 ára að skanna vegabréfið handvirkt við sjálfvirku hliðin.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi ISAVIA, segir hliðin hafa gefið góða raun og flýta mikið fyrir ferlinu, en á álagstímum hafa gjarnan myndast langar raðir við landamæraeftirlitið. „Þetta er farið að rúlla hraðar og það er búið að stækka salinn mjög mikið þannig þetta hefur gengið betur,“ segir Guðni en bætir við að farþegar sem fari um völlinn hafi aldrei verið fleiri en í sumar og það séu vissir tímar dags þar sem álagið er meira en á öðrum tímum, á morgnana og eftir hádegi þegar mikið af tengiflugfarþegum WOW air og Icelandair fari um völlinn.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.

„Það eru því ennþá þessir álagstímar og þarna myndast auðvitað raðir, en hliðin hafa hjálpað mikið til við að létta af álaginu, bæði stækkun salarins og sjálfvirku hliðin. Síðan hefur lögreglan staðið sig mjög vel í að halda uppi hraðri og góðri þjónustu,“ segir Guðni.

Aukin sjálfvirkni og fjölgun starfsfólks til að fylgja fjölguninni

Aukin sjálfvirkni og bættir ferlar á flugvellinum er einmitt það sem hefur gert flugvellinum kleift að ráða við þessa hröðu fjölgun ferðamanna, úr tveimur milljónum flugfarþega árið 2010 upp í 8,7 milljónir farþega í ár. „Við bættum ferla og endurskipulögðum svæðið. Sjálfvirkni í innritun og vopnaleit var aukin og starfsfólki fjölgað,“ segir Guðni.

Virðist þetta hafa tekist vel til en 90 prósent flugfarþega biðu innan við fimm mínútur eftir vopnaleit í júní. „Það er mjög góður árangur, eins og við viljum hafa þetta,“ segir Guðni.

Frétt mbl.is: Malbikað á Keflavíkurflugvelli (myndir)

Stækkun flugstöðvarinnar um sjö þúsund fermetra er hér um bil lokið en síðasti hlutinn verður tekinn í notkun í september. Þá eru þessa dagana meiriháttar malbikunarframkvæmdir á tveimur flugbrautum vallarins, en heildarkostnaður við malbikunarframkvæmdirnar hleypur á sjö milljörðum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert