Auglýsing um starfið kom á óvart

Landspítali – háskólasjúkrahús við Hringbraut.
Landspítali – háskólasjúkrahús við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Yfirlæknir erfða- og sameindalæknisfræðideildar Landspítalans segir það hafa komið honum á óvart að staða hans hafi verið auglýst laus til umsóknar án þess að hann hafi sagt upp starfinu eða verið sagt upp. Þá segir hann það einnig hafa komið á óvart hvernig auglýsingin var orðuð.

Eins og mbl.is greindi frá í gær ríkir mikil óánægja meðal yfirlækna á rannsóknarsviði spítalans eftir að staðan var auglýst. Núverandi yfirlæknir deildarinnar, Jón Jóhannes Jónsson, er æviráðinn og hefur sinnt starfinu í að verða tvo áratugi. Hann hlaut nýlega viðurkenningu frá sjúkrahúsinu fyrir vel unnin störf og er jafnframt prófessor fræðigreinarinnar innan læknadeildar Háskóla Íslands.

Skipulagsbreytingar á sviðinu

Nýlega voru kynntar skipulagsbreytingar á rannsóknarsviði spítalans sem taka gildi 1. október næstkomandi, en samkvæmt frétt á vef spítalans felast breytingarnar einkum í því að stjórnunarfyrirkomulag verði fært til samræmis við tilhögun á öðrum klínískum sviðum spítalans. Felur það í sér að yfirlæknar og deildarstjórar heyra beint undir framkvæmdastjóra sviðsins, eins og á öðrum sviðum.

Hafði Jón Jóhannes átt fund með Páli Matthíassyni, forstjóra spítalans, vegna breytinganna. Hann segir að það hafi hins vegar ekki verið búið að ganga frá því hvaða áhrif skipulagsbreytingarnar myndu hafa á starfið hans og honum hefði verið tjáð að það yrði ekki gert fyrr en eftir sumarfrí.

„Mér skildist á forstjóranum að það yrði ekkert auglýst fyrr en búið væri að útfæra betur þessar breytingar. Svo það kom mér mjög á óvart að staðan skyldi auglýst og hvernig auglýsingin var orðuð,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

Stjórnendur spítalans hafa ekki viljað tjá sig um málið þegar eftir því hefur verið leitað. 

Gætu misst starfsmenn

Jón segir sér og öðrum innan deildarinnar löngum hafa verið ljóst að það þyrfti að stækka deildina svo hún gæti sinnt sínum verkefnum. Þetta verklag væri hins vegar ekki til þess fallið. „Ef þetta á að halda svona áfram held ég að spítalinn geti lent í því að missa fólk frá sér og þá er ég ekki bara að tala um mig,“ segir hann.

Þor­björn Jóns­son, formaður Lækna­fé­lags Íslands, sagði í samtali við mbl.is í gær að verklagið vekti furðu. Hann minn­ist þess ekki að nokk­urn tím­ann hafi verið aug­lýst í stöðu yf­ir­lækn­is við Land­spít­ala án þess að gengið hafi verið frá starfs­lok­um viðkom­andi áður.

Lækna­fé­lagið hef­ur komið að mál­inu fyr­ir hönd Jóns og seg­ir Þor­björn vinnu­brögð stjórn­enda spít­al­ans ein­kenni­leg. Þá hafa yfirlæknar á spítalanum sagt all­an rök­stuðning skorta fyr­ir aðgerðum stjórn­enda sjúkra­húss­ins. Nýr fram­kvæmda­stjóri var ráðinn yfir rann­sókn­ar­sviðið á síðasta ári og hef­ur verið ófriður inn­an sviðsins síðan. Segja yf­ir­lækn­arn­ir að ákvörðunin um að aug­lýsa stöðuna lausa snú­ist miklu frek­ar um per­són­ur en hag sjúk­linga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert