Aukin hætta á jökulhlaupi í Múlakvísl

Múlakvíslin var orðin mikil vöxtum síðdegis í dag.
Múlakvíslin var orðin mikil vöxtum síðdegis í dag. mbl.is/Jónas Erlendsson

Aukin hætta er á jökulhlaupi í Múlakvísl á Mýrdalssandi. Undanfarna daga hefur rafleiðni í Múlakvísl farið jafnt og þétt hækkandi. Það bendir til þess að óvenjumikið jarðhitavatn sé í ánni sem bendir til aukinnar hættu á jökulhlaupi.

Lögreglumenn á vettvangi hafa staðfest að óvenjumikið rennsli sé í ánni og fylgst er náið með frekari hættumerkjum. Þetta kemur fram á heimasíðu Veðurstofunnar.

Leiðnimælingar segja til um magn jarðhitavatns í ánni og þegar hlaup af jarðhitavöldum eru í uppsiglingu tekur leiðnin í ánni að stíga. Leiðniaukningin getur varað jafnvel í nokkra daga áður en sjálft hlaupið hefst.

Allmörg hverasvæði eru þekkt undir Mýrdalsjökli. Sírennsli er frá þessum svæðum og fer það eftir landslaginu á hverjum stað hvort bræðsluvatnið safnast fyrir eða ekki. Misjafnt er hversu mikið vatn safnast fyrir í þessum lónum áður en hleypur úr þeim og einnig hversu hratt þau tæmast.

Fréttin var uppfærð kl. 15:51 með upplýsingum úr fréttatilkynningu Veðurstofu Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert