Ganga frá Hveragerði á Úlfljótsvatn

Frá skátámótinu sem nú stendur yfir.
Frá skátámótinu sem nú stendur yfir. Ljósmynd/World Scout Moot

„Við ákváðum að bjóða upp á gönguferð frá Hveragerði yfir á Úlfljótsvatn í hálfgerðu gríni og bjuggumst við 30-40 skátum í mesta lagi. Það var hinsvegar ekki raunin og núna þegar innan við sólahringur er í brottför hefur yfir helmingur þátttakenda skráð sig,“ segir Sjöfn Ingvarsdóttir, dagskrárstjóri World Scout Moot í Hveragerði.

Í kvöld er síðasta nóttin sem þátttakendur á skátamótinu World Scout Moot 2017 gista á 11 stöðum um allt land og munu allir 5.000 skátarnir koma saman á Úlfljótsvatni á morgun þar sem þeir dvelja fram á miðvikudag. Um helmingur skáta sem dvalið hefur í Hveragerði ætlar að ganga yfir á Úlfljótsvatn þegar dagskrá í Hveragerði lýkur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum mótsins.

Þær Fanný Björk Ástráðsdóttir, Kristjana Sveinsdóttir, Sjöfn Ingvarsdóttir og Sæbjörg Lára Másdóttir hafa stýrt undirbúningi og framkvæmd verkefnisins fyrir hönd skátafélagsins Stróks. „Við fjórar höfum staðið að mestu í þessu einar og eins og gefur að skilja þá hefur þetta verið mikil vinna,” segir Kristjana en hún fer með yfirstjórn öryggismála á svæðinu.

Ljósmynd/World Scout Moot

„Það hefur verið ótrúlega dýrmætt að upplifa þann mikla meðbyr og stuðning sem við höfum fengið frá bæjarfélaginu, fyrirtækjum og íbúum og án alls þess hefði þetta aldrei tekist eins vel og raun ber vitni“, segir Fanný Björk Ástróðsdóttir skipuleggjandi en það er Skátafélagið Strókur sem hefur veg og vanda af dagskrá og umgjörð í samstarfi við Hveragerðisbæ, Garðyrkjuskólann og íbúa bæjarins.

Bæjarstjórinn hvatti til baksturs

Kaffihús mótsins er í „bananahúsinu“ svokallaða í Garðyrkjuskólanum en rekstur þess er fjáröflun fyrir skátafélagið og standa foreldrar skáta úr Strók vaktina í sjálfboðaliðavinnu að því er segir í tilkynningunni.

„Veitingarnar koma svo að mestu úr ofnum bæjarbúa” segir Sjöfn hlæjandi. „Þegar bæjarstjórinn okkar, Aldís Hafsteinsdóttir, heyrði af þessum pælingum um kaffihúsið var hún ekki sein á sér að senda út skilaboð til allra bæjarbúa í gegnum Facebook þar sem hún hvatti þá til að græja heimabakstur og færa okkur. Viðbrögðin létu svo sannarlega ekki sér standa og til okkar hefur verið stöðugt rennsli af fólki sem vill gefa veitingar í kaffihúsið og styðja þannig við bakið á skátafélaginu,“ segir Sjöfn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert