John er fyrsti Íslendingurinn á topp K2

John Snorri Sigurjónsson.
John Snorri Sigurjónsson. Lífsspor á K2/Facebook

John Snorri Sigurjónsson er fyrsti Íslendingurinn til að komast upp á topp fjallsins K2 sem er 8.611 metra hátt og er eitt það hættulegasta og mannskæðasta í heimi. Það tók John um rúmar 18 klukkustundir að komast upp á topp úr fjórðu búðum. Tólf manna hópur fór upp á topp, þar af níu sherpar. 

„Tilfinningin er blendin. Við erum rosalega þreyttir. Þetta var mjög erfitt,“ segir John Snorri af toppi K2. Hann var býsna þrekaður en alsæll. 

Til að komast upp á topp síðustu 300 metrana þurftu þeir að binda sig þrír saman því aðstæður voru svo krefjandi. Þeir fundu reipi frá leiðangri sem fór upp á topp árið 2014 til að komast alla leið. „Við erum orðnir bláir af súrefnisleysi,“ segir John. Þeir stoppa örstutt á toppnum því bæði er súrefnið orðið af skornum skammti og einnig er veðurglugginn stuttur, en aðstæður eru vægast sagt krefjandi. „Við ætlum að vera fljótir niður,“ segir hann.

Ferðin frá búðum fjögur upp á topp tók lengri tíma en áætlað var en ýmsir áhættuþættir spila inn í sem geta tafið för. 

Það mun taka að minnsta kosti þrjá daga að komast niður í grunnbúðir og þar bíður Kári Schram kvikmyndatökumaður eftir frænda sínum og vini. Þeir vinna að gerð kvikmyndar um ferðina, eins og heyra má í ítarlegu viðtali Kára við K100. 

Líkt og Vilborg Arna pólfari gerði árið 2012, þegar hún gekk ein síns liðs á Suðurpólinn þá er John Snorri í sínu ferðalagi að safna áheitum fyrir Líf Styrktarfélag. Þeir sem vilja styðja John Snorra og um leið Líf geta gert það á www.lifsspor.is og í síma 9081515. Allur ágóðinn rennur óskertur til uppbyggingar á Kvennadeild Landspítalans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert