Meðalaldur kennara heldur áfram að hækka

Meðalaldur kennara heldur áfram að hækka.
Meðalaldur kennara heldur áfram að hækka. mbl.is/Styrmir Kári

Meðalaldur starfsfólks við kennslu í grunnskólum hefur farið hækkandi frá árinu 2000. Haustið 2000 var meðalaldur starfsfólks við kennslu 42,2 ár en var 46,8 ár haustið 2016. Á þessu tímabili hefur meðalaldur kvenkennara hækkað meira eða úr 41,8 árum í 46,9 ár. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar

Meðalaldur karlkennara hefur hækkað úr 43,6 árum í 46,3 ár. Meðalaldur starfsfólks við kennslu án réttinda er töluvert lægri en réttindakennara og hefur svo verið á öllu tímabilinu. Haustið 2016 var meðalaldur kennara með kennsluréttindi 47,3 ár en meðalaldur kennara án kennsluréttinda 38,8 ár, segir í sömu frétt. 

Starfsmönnum við grunnskóla á Íslandi hefur fjölgað. Haustið 2016 störfuðu 7.907 starfsmenn við grunnskóla á Íslandi, 254 fleiri en haustið 2015 en þetta er um 3,3% fjölgun. Þroskaþjálfum hefur fjölgað hlutfallslega mest, eða um 559%, úr 29 í 191 haustið 2016. Stuðnings- og uppeldisfulltrúum hefur fjölgað um 307%, úr 247 í 1.006. 

Nemendum, sem skráðir voru með erlent tungumál að móðurmáli, hefur fjölgað ár frá ári frá því að Hagstofan hóf að safna inn þeim upplýsingum. Að sama skapi hefur nemendum með erlent ríkisfang fjölgað um 14,0% á milli ára og voru 2.046 haustið 2016. 

Ef litið er á nokkur tungumál, sem töluð eru af 50 eða fleiri nemendum, má sjá að nemendum sem tala rúmensku fjölgaði um tvo þriðju (66,7%), þeim sem tala arabísku fjölgaði um tæplega 40% (39,7%), nemendum sem tala spænsku fjölgaði um rúm 36% (36,4%), nemendum sem tala ýmis afrísk mál fjölgaði um rúman þriðjung (34,9%) og þeim sem tala þýsku um tæpan þriðjung (31,9%) á milli ára. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert