Selfyssingar lána skátum svefnpoka og búnað

Skátarnir vinna sjálfboðaliðavinnu á ýmsum stöðum á landinu fram á …
Skátarnir vinna sjálfboðaliðavinnu á ýmsum stöðum á landinu fram á laugardag er þeir koma saman á Úlfljótsvatni. Ljósmynd/Bandalag íslenskra skáta

Stór hópur þeirra 200 skáta, sem ekki fengu farangur sinn á Keflavíkurflugvelli í vikubyrjun, hefur ekki enn fengið farangur. Skátarnir eru hér á landi til að taka þátt í alþjóðlega skátamótinu World Scout Moot.  

Sjálfboðaliðar hafa verið í stöðugum ferðum milli Keflavíkurflugvallar og keyrt farangur út til staðanna 11 þar sem skátarnir eru að vinna sjálfboðavinnu. Ekki er enn ljóst hvenær allir verða búnir að fá farangurinnn í hendur. 

„Það hefur verið hlýtt undanfarna daga og ýmsir skátanna eru við erfiðisvinnu þannig að sumir þeirra eru orðnir ansi illa lyktandi enda búnir að vera í sömu fötunum frá því þeir komu til landsins,“ er haft eftir Hermanni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Bandalags íslenskra skáta, í fréttatilkynningu frá félaginu. 

Íbúar á Selfossi brugðust skjótt við þegar sjálfboðaliðarnir komu þangað í gær og fóru strax af stað og söfnuðu dýnum, svefnpokum og öðru nauðsynlegu til þess að aðstoða farangurslausa skáta.

Þeir skátar sem komu án farangurs í Vestmannaeyjum fengu inni í Skátastykki, húsnæði skátanna í Eyjum, og fengu að sofa þar. 

Skátarnir eru dreifðir um allt land við sjálfboðavinnu, en á laugardag safnast þeir saman á Úlfljótsvatni. Þar er  undirbúningur í fullum gangi en vindur hefur verið að gera skátunum erfitt fyrir og hefur eitthvað verið um að tjöld hafi verið að fjúka þó að almennt gangi undirbúningur vel að því er segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert