Um 60 tjöld fuku út í veður og vind

Lognið fór heldur hratt yfir Suðurlandið í gær og lék …
Lognið fór heldur hratt yfir Suðurlandið í gær og lék skátana grátt. Ljósmynd/World Scout Moot

Um 11 matartjöld og 50 tjöld þátttakenda á skátamótinu World Scout Moot 2017 fuku út í veður og vind eða urðu fyrir skemmdum í hvassviðrinu sem gekk yfir Suðurland í gær. Hrönn Pétursdóttir mótsstjóri segir að þrátt fyrir tjónið hafi flestum þátttakendum þótt það vera ákveðið ævintýri að upplifa rammíslenska veðráttuna.

Þeir skátar sem staddir voru á Selfossi í gær voru færðir inn í skóla seinni partinn þar sem þeir gistu í nótt. „Fólk var alveg í góðum gír þar og góður andi en það fór nú eitthvað af búnaði, bæði matartjöldin sem fólk notar og eitthvað af persónulegum búnaði líka,“ segir Hrönn.

Helst voru það matartjöldin sem fuku í burtu en tjöld þátttakendanna löskuðust einnig og stangir brotnuðu. „Við erum með kokk á hverju svæði sem  eldar fyrir starfsfólkið og hann tók bara að sér, einn mjög góður aðili á Selfossi, að elda fyrir 400 manns,“ segir Hrönn.

Um 50 tjöld þátttakenda fuku eða skemmdust í stormi sem …
Um 50 tjöld þátttakenda fuku eða skemmdust í stormi sem gekk yfir Suðurland í gær. Ljósmynd/World Scout Moot

Hópurinn sem lenti í óveðrinu á Suðurlandi mun ljúka hefðbundinni dagskrá í dag og halda svo á Úlfljótsvatn í kvöld en til stóð að allir þátttakendur mótsins, um 5.000 manns, kæmu saman á Úlfljótsvatni á morgun. Þar hefur verið nokkuð hvasst í dag en á að lægja með kvöldinu.

„Það mun ekkert væsa um hópinn. Þetta var spurning um hvort ætti að taka þau úr skólanum og setja þau aftur á tjaldsvæðið á Selfossi eða koma þeim á Úlfljótsvatn og við bara ákváðum í samráði við þá sem reka Selfoss-svæðið að Úlfljótsvatn væri bara vænn kostur,“ útskýrir Hrönn.

Í Hveragerði þurftu fimm einstaklingar sem töpuðu tjöldunum sínum í vindinum að leita skjóls í gróðurhúsi. „Þeir sváfu ljómandi vel þar,“ segir Hrönn, spurð hvernig hafi farið um skátana í gróðurhúsinu. „Það er örugglega nær loftslagi sumra í heimalandinu heldur en hér,“ segir Hrönn og hlær.

Kátir skátar undir heiðskírum himni.
Kátir skátar undir heiðskírum himni. Ljósmynd/World Scout Moot

„Flestum fannst þetta svo gaman. Við erum búin að sjá fullt af vídeóum og tala við þá sem voru þarna og þeir segjast allir hafa upplifað þetta sem ævintýri og fólki fannst það bara spennandi,“ segir Hrönn.

Aðspurð segir Hrönn mótið hafa gengið vel hingað til, að frátöldu óveðrinu og því að enn saknar hópur skáta farangurs síns.  

„Það eru ennþá einhverjir 50 manns sem hafa ekki ennþá fengið farangurinn sinn eftir flugið þannig að við erum búin að vera með þrjá einstaklinga núna í nokkra daga frá því um helgina sem hafa verið að leita uppi farangur og tengja hann við eigendur sína og keyra um allt land,“ útskýrir Hrönn.

„Þetta náttúrlega þýðir það, bæði rokið og það að fólk er ekki með farangur sinn, að við þurfum að leggja mjög mikið á okkur til þess að útvega fólkinu einhvern búnað í staðinn. Við getum ekki verið að skilja fólk eftir,“ segir hún.

Búnaður hefur ýmist verið fenginn að láni, leigður eða keyptur og leggjast allir á eitt við að hjálpa þeim sem ekki hafa fengið farangur sinn. „Á mörgum stöðum um landið er það þannig að það voru íbúarnir á svæðinu sem komu til hjálpar eins og á Selfossi,“ segir Hrönn.

Útileguveður hefur verið misjafnlega gott síðan skátamótið hófst síðustu helgi.
Útileguveður hefur verið misjafnlega gott síðan skátamótið hófst síðustu helgi. Ljósmynd/World Scout Moot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert