Enn í tjaldinu tveimur vikum síðar

Konan hefur gist í tjaldi ásamt tæplega 20 ára gömlum …
Konan hefur gist í tjaldi ásamt tæplega 20 ára gömlum syni sínum eftir sex ár á biðlista eftir félagslegu húsnæði. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Konan sem ákvað í byrjun ágúst að gista í tjaldi í Laugardalnum með syni sínum vegna húsnæðisskorts er enn í sama tjaldi, tveimur vikum síðar.

Reykjavíkurborg hefur enn ekki tekist að leysa úr vanda hennar en það gæti þó gerst í lok þessarar viku.

Konan, sem heitir Lilja Helga Steinberg Matthíasdóttir, hefur verið í sex ár á biðlista hjá borginni eftir félagslegu húsnæði.

„Blautt og ógeðslegt“

Hún kveðst vera að bíða eftir lista yfir húsnæði sem borgin átti að fá síðastliðinn mánudag en vinna átti úr honum í vikunni. Í framhaldinu stóð til að hafa samband við Lilju Helgu vegna mögulegs húsnæðis.

„Ég hélt að þetta myndi ganga hraðar, ég var að vonast til þess,“ segir hún. „Þetta er orðið alltof langur tími. Þetta er búið að vera blautt og ógeðslegt.“

Hún vonast til að mál hennar leystist áður en kólna tekur í veðri. „Ég er að vona að það sé verið að vinna í þessu og að ég fái góðar fréttir ekki seinna en á föstudag.“

Ótrúlega bjartsýn

Þegar mbl.is hafði síðast samband við hana var henni boðið stærra, sex manna tjald, til afnota en hún hefur ekki þegið það. Sjálf gistir hún í tveggja manna tjaldi með tæplega tvítugum syni sínum.

Síðan þá hefur ein kona haft samband við hana og boðið henni herbergi til leigu en Lilja vildi bíða aðeins lengur í von um að Reykjavíkurborg komi henni til aðstoðar. „Maður er alltaf svo bjartsýnn, það er alveg ótrúlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert