Óvenjulegir viðburðir Menningarnætur

Á viðburðinum Ljótar gjafir má sjá „gjafir frá ferðalögum til …
Á viðburðinum Ljótar gjafir má sjá „gjafir frá ferðalögum til ýmissa landa í 21 ár“ og þannig „skoðað afraksturinn, lært leikreglurnar og kannað endimörk góðs smekks með gestgjöfunum“. Ljósmynd/Menningarnótt

Á Menningarnótt verða yfir 300 viðburðir í boði og sumir þeirra eru óvenjulegri en aðrir. Svo virðist sem að nóg sé í boði fyrir þá sem vilja fara ótroðnar slóðir og á viðburðasíðu Menningarnætur má finna ýmsa falda gersema. Til að mynda er boðið upp á sýningu ljótra gjafa, sögu skópara og „annars konar flugeldasýningu“.

Á Flókagötu 41 verður til að mynda afar áhugaverður viðburður þar sem ljótar gjafir verða til sýnis. Samkvæmt upplýsingum frá viðburðinum bjóða gestgjafar öllum áhugasömum að skoða „gjafir frá ferðalögum til ýmissa landa í 21 ár“. Þá segir að gestir geti þannig „skoðað afraksturinn, lært leikreglurnar og kannað endimörk góðs smekks með gestgjöfunum“.

Á Léttur í lunda er fólk á öllum aldri hvatt …
Á Léttur í lunda er fólk á öllum aldri hvatt til að föndra á sig lundafætur, gogga, vængi og stél og jafnvel heilu lundabúningana svo fólk geti „svifið um bæinn, létt í lunda“. Mynd/Menningarnótt

Á Vitatorgi verður viðburðurinn Léttur í lunda, í boði Landsbankans. Markmið hans er að „þreifa betur á hinum umdeilda fugli“ sem lundinn er. Í tilefni þess er fólk á öllum aldri hvatt til að föndra á sig lundafætur, gogga, vængi og stél og jafnvel heilu lundabúningana svo fólk geti „svifið um bæinn, létt í lunda“. Þá verður boðið upp á „Puff á priki“ og „Goggbita með mjólk“ en ekki er víst hvað það er. 

Á Týsgötu 1 er hátíðargestum boðið á „annars konar flugeldasýningu“ en ekki er nánar greint frá í hverju það felist. Samkvæmt viðburðalýsingunni á flugeldasýning þessi að „slá flugeldasýningunni síðar um kvöldið við“ enda bjóði hún upp á „meiri spennu, meira návígi og meiri hita“. 

Söngkonan Svanlaug Jóhannsdóttir hefur safnað að sér skópörum í gegnum …
Söngkonan Svanlaug Jóhannsdóttir hefur safnað að sér skópörum í gegnum tíðina sem eiga sér sögu. Á Hannesarholti ætlar hún að sýna skósafnið og segja sögu þeirra. Ljósmynd/Menningarnótt

Söngkonan Svanlaug Jóhannsdóttir hefur safnað að sér kvenskópörum í gegnum tíðina sem eiga sér sögu. Á Hannesarholti ætlar hún að sýna skósafnið og segja sögu þeirra og kvennanna sem gengu í þeim með frásögn, söng og tónlist. Verkið, sem heitir Í hennar sporum, á þannig að fanga gleðina, átökin og rómantíkina sem varð í tengslum við skóna. 

Að lokum má nefna súrrealísku sýndarveruleikaupplifunina Kassann, sem verður á Hlemmi. Með því að setja upp sýndarveruleikagleraugu og heyrnatól eru þátttakendur skyndilega fastir í ósýnilegum kassa. Birtist þeim þá ókunnug manneskja, sem virðist vera þeirra eina von umað losna úr prísundinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert