Dagskráin endurspeglar listalíf bæjarins

Bæjarhátíðin Blómstrandi dagar fer fram í Hveragerði um helgina þar …
Bæjarhátíðin Blómstrandi dagar fer fram í Hveragerði um helgina þar sem gestum gefst tækifæri til þess að mæta á listviðburði í heimahúsum og smakka alls kyns tegundir af ís. Ljósmynd/Facebook

Bæjarhátíðin Blómstrandi dagar fer fram í Hveragerði nú um helgina með fjölbreyttum tónlistarviðburðum og áhugaverðum listviðburðum ásamt því sem Kjörís býður gestum og gangandi upp á furðulegar ístegundir. 

Dagskrá hátíðarinnar hefst í dag en hápunkturinn er á laugardagskvöld með brekkusöng í Lystigarðinum og stórglæsilegri flugeldasýningu Hjálparsveita skáta í Hveragerði.

Hápuntur hátíðarinnar er brekkusöngur í Lystigarðinum á laugardagskvöld ásamt flugeldasýningu.
Hápuntur hátíðarinnar er brekkusöngur í Lystigarðinum á laugardagskvöld ásamt flugeldasýningu. Ljósmynd/Facebook

Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og skipulagsfulltrúi Hveragerðisbæjar, segir að í ár sé lögð áhersla á fjölbreytta listviðburði sem endurspegla listalíf bæjarins.

Fjölbreyttir tónlistarviðburðir skreyta hátíðina en meðal annars koma þar fram Ágústa Eva, Jónas Sig og ritvélarnar auk þess sem hljómsveitin Made in Sveitin skemmtir gestum á Blómadansleiknum.

Gestum gefst tækifæri á að smakka allskyns furðubrögð og aðrar tegundir þegar Kjörís heldur sína árlegu hátíð. Jóhanna segir að meðal þess sem í boði verður í ár séu hangikjötsís, hunangsís, kæfuís og vöffluís.

Bæjarbúar taka virkan þátt í hátíðinni, skreyta heimili sín og …
Bæjarbúar taka virkan þátt í hátíðinni, skreyta heimili sín og bjóða gestum inn á heimili sín. Ljósmynd/Facebook

Þá segir hún bæjarbúa taka virkan þátt í hátíðinni með því að skreyta hverfin og bjóða gestum heim. Á heimilum verður boðið upp á opnar listasýningar og vinnustofur ásamt bílskúrssölum og mörkuðum.

Hægt er að nálgast upplýsingar um opnar sýningar og vinnustofur á korti á heimasíðu Hveragerðisbæjar og á Facebook undir nafninu Blómstrandi dagar. Þar er einnig hægt að kynna sér dagskrá hátíðarinnar í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert