Hleypur kasólétt í Reykjavíkurmaraþoninu

Kolbrún hleypur í Reykjavíkurmaraþoni fyrir Neistann, styrktarfélag hjartaveikra barna, í …
Kolbrún hleypur í Reykjavíkurmaraþoni fyrir Neistann, styrktarfélag hjartaveikra barna, í minningu sonar síns Rökkva Þórs Sigurðssonar. Ljósmynd/Sigurður Trausti Traustason

„Við ætlum að fara saman, ég og Nían,“ segir Kolbrún Ýr Einarsdóttir, sem tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu, kasólétt. Kolbrún hleypur fyrir Neistann, styrktarfélag hjartaveikra barna, í minningu sonar síns Rökkva Þórs Sigurðssonar, sem lést aðeins sjö vikna gamall.

Hleypur fyrir Neistann í minningu sonar síns

Neistinn hefur hjálpað Kolbrúnu og fjölskyldu hennar í gegnum afar erfiða tíma en hún missti son sinn, Rökkva Þór, aðeins sjö vikna gamlan, í kjölfar fyrstu hjartaaðgerðar sinnar.

„Við erum enn að vinna úr því áfalli og höfum fengið mikla hjálp frá Neistanum. Ég mæti á hjartamömmufundi og þær eru allar alveg yndislegar konur sem styðja mikið við mann í þessum erfiðu aðstæðum sem maður lendir í þegar maður þarf að fara með barnið sitt í svona aðgerð,“ segir hún.

Kolbrún tók einnig þátt í maraþoninu í fyrra til styrktar félagsins og þá fór hún tíu kílómetra, en þó ekki kasólett. „Ég gat bara ekki hugsað mér að vera ekki með í ár,“ segir hún. „Mig langaði að taka þátt til þess að styðja Neistann, með þakklæti í huga fyrir allt sem þau hafa gert fyrir okkur,“ segir hún.

Tekur þátt í maraþoni fyrir fæðingu

Kolbrún er nú komin átta mánuði á leið en lætur það ekki stoppa sig. Hún á von á stelpu sem Kolbrún og maðurinn hennar, Sigurður Traustason, kalla Níuna.

„Hjartagallinn sem sonur okkar lést vegna var arfgengur svo við fórum í glasafrjóvgun og vorum að reyna að koma í veg fyrir að hann myndi erfast áfram og hún er fósturvísir númer níu. Þannig að við köllum hana Níuna,“ segir Kolbrún kímin.

Kolbrún segir að því hlaupi hún ekki ein heldur með Níunni. „Við ætlum að fara saman, ég og Nían,“ segir hún. Stúlkan tekur því þátt í Reykjavíkurmaraþoni, fyrir fæðingu.

Kannski pínulítið stressuð

Ásamt Níunni fer móðir Kolbrúnar með Kolbrúnu í hlaupið og vinkona hennar Guðrún, sem hleypur hálfmaraþon í minningu Rökkva. Að hennar sögn er fjölskylda hennar mögulega stressaðari en hún sjálf, en þrátt fyrir það styðji hún alltaf við bakið á henni. „Ég er með fullt af fólki sem mun hvetja mig áfram,“ segir hún. 

Aðspurð segist hún vera „kannski pínulítið stressuð“ að taka þátt, komin svona langt á leið. Hún ætlar að ganga þrjá kílómetra og hefur æft sig tvisvar í viku fyrir það.

„Þetta á bara eftir að ganga vel af því að ég held að adrenalínið og gleðin við að taka þátt í þessum degi muni koma manni á leiðarenda,“ segir hún. „Ég skal samt alveg játa að þetta er farið að verða pínulítið erfitt,“ bætir hún þó við. 

Finnur hvergi aðra eins samkennd

Kolbrún segir að mikilvægi Neistans felist ekki einungis í að styðja við fjölskyldur hjartveikra barna fjárhagslega. „Þetta er svo mikið, mikið meira. Þetta er allur þessi andlegi stuðningur og félagslegi partur, sem er svo miklu mikilvægari fyrir mann,“ segir hún.

Félagið hafi stutt við Kolbrúnu á hennar erfiðustu stundum:

„Maður finn­ur hvergi aðra eins sam­kennd og þegar maður er í hópi fólks sem að skilur hræðsluna sem maður finnur fyrir og þekkir þessar flóknu og erfiðu til­finn­ing­ar,“ seg­ir hún. 

Þeir sem vilja heita á Kolbrúnu Ýr geta gert það hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert