Líkja eftir bílslysi í Smáralind

Sekt við noktun farsíma við akstur verður á næstunni áttfölduð, …
Sekt við noktun farsíma við akstur verður á næstunni áttfölduð, úr 5.000 í 40.000 krónur. mbl.is/Hanna

Forseti Íslands vígði í dag sýndarveruleikahermi í Smáralind, sem ætlað er að líkja eftir áhrifum bílslyss. Að sögn Einars Magnúsar Magnússonar, sérfræðings í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu, spilar hermirinn á öll möguleg skilningarvit til þess að það komist sem næst því sem kemur alltof oft fyrir er fólk notar síma undir stýri.

Hermirinn er hluti auglýsingaherferðar Samgöngustofu, Sjóvár og Símans Höldum fókus, sem hleypt verður af stokkunum í þriðja sinn á föstudag. Markmiðið með herferðinni er að vekja fólk, þá sérstaklega unga ökumenn, til umhugsunar um hættuna sem stafar af farsímanotkun undir stýri. Á dögunum kom út könnun á vegum Sjóvá þar sem fram kom að 5 af hverjum 6 framhaldsskólanemum nota síma við akstur þrátt fyrir að nær allir aðspurðir telji það vera hættulegt.

Hermirinn verður öllum opinn frá föstudegi og fram til miðvikudags. Framleiðslufyrirtækið Tjarnargatan hefur haldið utan um tæknilega útfærslu ásamt fyrirtækinu Imperial sem sérhæfir sig í sýndarveruleika og 360° lausnum.

Óhefðbundnar leiðir ná til unga fólksins

Einhverjum kann að hafa brugðið í brún í umferðinni síðustu daga er þeir ráku augun í illa farin bílflök úti í vegkanti en búið er að koma þremur bílum fyrir á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við herferðina til að minna fólk á mögulegar afleiðingar þess að hafa ekki hugann við aksturinn. Einn bíllinn er við Smáralind, annar við höfuðstöðvar Símans í Ármúla og sá þriðji fyrir framan Sjóvá í nágrenni Kringlunnar.

Einar Magnús segir að ákveðið hafi verið að fara óhefðbundnar leiðir til að ná athygli en það skýrist af því að markmiðið sé að höfða til markhóps sem er líklegur til að vilja viðhafa eitthvað sem er óvenjulegt, það er unga kynslóðin. „Maður þarf að ná athygli hennar með einhverju öðru en bæklingum og þvíumlíku, sem ég held reyndar að flestir séu hættir að nota,“ segir Einar.

Átakið Höldum fókus var fyrst kynnt árið 2013 og vann meðal annars Lúðurinn, íslensku auglýsingaverðlaunin. Marktæk breyting varð á viðhorfi almennings til farsímanotkunar við akstur á milli kannana Capacent árið 2012 og 2013 er þeim, sem segjast oft eða stundum tala í síma án handfrjáls búnaðar á aldrinum 18-24 ára, fækkaði úr 50% í 41%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert