Borholan í Surtsey fallin saman

Stór hópur vísindamanna hefur dvalið í eynni og starfað að …
Stór hópur vísindamanna hefur dvalið í eynni og starfað að verkefninu en holann átti að þjóna sem tilraunastofa í örverufræði og jarðefnafræði. Ljós­mynd­/​Snorri Páll Snorra­son

Borhola í Surtsey féll saman og bor festist í henni. Eftir margar tilraunir til að losa borinn var gefist upp og ekki verður meira borað í holunni. Þegar hefur verið hafist handa við að bora aðra holu.

Holann átti að verða 200 metra djúp og átti að nýtast til rannsóknar um mynd­un mó­bergs og hvort bakt­erí­ur ættu hugs­an­lega ein­hvern þátt í henni. Stór hópur vísindamanna hefur dvalið í eyjunni og starfað að verkefninu. 

Frétt mbl.is:Und­ir­búa 200 metra bor­holu í Surts­ey

„Þessi útkoma er vissulega áfall en ef þokkalega gengur hér eftir ætti að nást að bora báðar holurnar sem að var stefnt,” segir í tilkynningu frá Jarðvísindastofnun Háskólans.

Hefur setið fastur síðan á miðvikudag

Borinn hefur verið fastur síðan á miðvikudagsmorgun, þegar holan féll saman. Þá náðist að losa hann í stutta stund en svo festist hann aftur. Að lokum gáfust vísindamennirnir upp og hættu við borun holunnar. Þá voru borstálin söguð í sundur og tekin upp.

Í tilkynningunni segir að hægt hefði verið að nota grennri borkrónu og halda áfram með holuna. Aftur á móti hefði þó ekki þjónað hagsmunum verkefnisins nægilega vel því þá hefði ekki verið hægt að setja niður álfóðringu í holunni.

Þegar byrjuð að bora aðra

Fóðringin er nauðsynleg verkefninu, en hún er forsenda þess að holan geti þjónað sem tilraunastofa fyrir mælingar í örverufræði og jarðefnafræði, næstu áratugi.

Nú hefur þegar verið hafin borun annarrar lóðréttrar holu við hlið þessarar. Vonast er til að á nokkrum dögum verði að hægt að komast niður á 170 til 180 metra dýpi en helst niður fyrir 200 metra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert