„Finnst þetta besta starf í heimi“

Fjóla segir litið upp til íslenskra leikskólakennara, enda vinni þeir …
Fjóla segir litið upp til íslenskra leikskólakennara, enda vinni þeir starf sitt af mikilli fagmennsku. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta sýnir bara fram á að leikskólakennarar eru að vinna sitt starf af fagmennsku,“ segir Fjóla Þorvaldsdóttir, varaformaður félags leikskólakennara, um niðurstöður nýlegrar könnunar meðal foreldra leikskólabarna sem sýna að 98 prósent foreldra telja að barninu þeirra líði vel og sé öruggt á leikskólanum. Könnunin var gerð meðal foreldra barna á leikskólum Reykjavíkurborgar.

Könnunin var gerð í vor, þegar ekki var jafn mikil mannekla og nú blasir við, en Fjóla segir niðurstöðurnar alls ekki ný tíðindi. „Almennt er fólk hér á landi ánægt með leikskólana og það starf sem fer það fram. Leikskólakennarar hér á landi leggja sig fram um að vera með gæða skólastarf.“

Fjóla segir að þrátt fyrir manneklu í leikskólum nú þá gefi niðurstöður könnunarinnar rétta mynd af ástandinu. Passað sé upp á að draga ekki úr gæðum starfsins. „Þó svo að það sé ekki búið að ráða að fullu eru leikskólakennarar í dag að reyna hvað þeir geta að halda uppi gæðastarfi í leikskólum.“ Á miðvikudag átti enn eftir að ráða í 119 stöðugildi í leikskólum Reykjavíkurborgar.

Stórir sigrar eru unnir á leikskólum á hverjum degi.
Stórir sigrar eru unnir á leikskólum á hverjum degi. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég myndi segja að fagmennska í leikskólum hér á landi væri á heimsmælikvarða. Við fáum gesti víða að úr heiminum til að skoða íslenskt leikskólastarf því það er gott. Sjálf hef ég reynslu af mörgum Evrópuverkefnum og í gegnum þau höfum við alltaf fengið góða dóma um okkar starf. Í Evrópu er litið upp til íslenskra leikskólakennara. Þeir hafa góða menntun og sýna mikla fagmennsku,“ segir Fjóla. Hún telur að í samfélaginu sé almennt borin virðing fyrir leikskólakennurum og þeirra starfi. Það endurspeglist í niðurstöðum könnunarinnar.

Stórsigrar unnir á hverjum degi

Það eru þó ekki bara foreldrarnir sem eru ánægðir með leikskólastarfið heldur er starfsfólk leikskólanna mjög ánægt í starfi, ef marka má niðurstöður viðhorfskönnunar meðal starfsfólks skóla- og frí­stunda­sviðs frá því í vor. Þar kemur fram að flest­um finn­ist vinnustaður­inn þeirra hafa góða ímynd og eru stolt­ir af hon­um. Þá benda niður­stöður til þess að starfs­menn séu á heild­ina litið ánægðir í starfi og líði vel í vinn­unni. Starfsfólk leikskólanna í Reykjavík heyrir undir skóla- og frístundasvið borgarinnar.

Þessar niðurstöður koma Fjólu heldur ekki á óvart. „Þeir sem koma til starfa í leikskólunum, og hafa starfað þar, finnst þetta besta starf í heimi. Það er málið. Starf leikskólakennara er alveg sérstaklega áhugavert og skemmtilegt starf. Sjálf hef ég verið í þessu í 40 ár.“

Fjóla segir það almennt vera þannig að þegar leikskólarnir eru vel mannaðir þá líði starfsfólkinu vel á vinnustaðnum. „Það er þannig að þegar okkur hefur tekist að fá fólk til starfa þá líður því vel í starfi.“

Fjóla segir leikskólakennara þurfa að vera duglegri að segja frá því sem þeir eru að gera. Öllu því jákvæða í starfinu og þeim stórsigrum sem unnir eru á hverjum degi. „Þá er ég að tala um börnin sem eru fyrir framan okkar á hverjum einasta degi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert