Fiskidagurinn „litli“ á Mörk

Þorvaldur S. Þorvaldsson veitingamaður skenkir fiskisúpuna góðu til glaðbeittra gesta.
Þorvaldur S. Þorvaldsson veitingamaður skenkir fiskisúpuna góðu til glaðbeittra gesta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er gert með stuðningi Fiskidagsins mikla á Dalvík, sem haldinn var í blíðviðri um síðustu helgi þar. Við fengum sent efni í fiskisúpu og borgara ásamt blöðrum og fánum til að halda partí,“ segir Gísli Páll Pálsson, forstjóri Markar í Reykjavík.

Í Mörk búa um 240-250 manns og 200 til viðbótar eru á launaskrá. Einnig mæta vinir og ættingjar á Fiskidaginn litla, sem var haldinn í þriðja sinn í Mörk í gær. Gísli Páll segir að það hafi verið mjög skemmtilegt öll skiptin, Fiskidagurinn litli sé haldinn fyrsta fimmtudag eftir Fiskidaginn mikla á Dalvík, fyrri part dagsins og í hádeginu þar sem gestirnir séu flestir árrisulir.

Fiskidagssérréttir í boði

Um veisluna sjá Thelma Hafþórsdóttir Byrd iðjuþjálfi, Þorvaldur S. Þorvaldsson og Hans G. Häsler, veitingamenn á Hjúkrunarheimilinu Mörk, en þeim innan handar er Friðrik Valur Karlsson, sem áður rak veitingastaðinn Friðrik V. ásamt eiginkonu sinni. Friðrik er yfirkokkur á Fiskideginum mikla á Dalvík. Hann segir að fiskborgararnir og „filsurnar“, sem eru pylsur úr fiski, séu eftir hans uppskrift og eingöngu framleidd fyrir þessa viðburði, enda verði hráefnið að vera splunkunýtt og ferskt.

„Við viljum þakka Dalvíkingum kærlega fyrir aðstoðina og hráefnið,“ segir Friðrik ánægður.

„Ég komst að því að Gísli Páll, forstjóri Markar, þekkir Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóra Fiskidagsins mikla á Dalvík, en Júlli var áður forstöðumaðurinn á Dalbæ sem gerði veðurklúbbinn þar frægan,“ segir Þorvaldur spurður um tilurð Fiskidagsins litla. „Við fengum svo KK (Kristján Kristjánsson) til að koma að spila, en hann spilaði á Fiskideginum á Dalvík í fyrra,“ bætir Hans við.

Þorvaldur skenkir súpu og ljóstrar því upp að í henni séu m.a. þorskur, lax, rækjur, ýsa, langa og keila, en hráefnið sé í boði Samherja á Dalvík og Hafsins.

Gamla fólkið að yngjast

Lilja Benediktsdóttir og Hafliði Hjartarson voru glöð að fá KK.
Lilja Benediktsdóttir og Hafliði Hjartarson voru glöð að fá KK. mbl.is/Eggert Jóhannesson


„Það er dásamlegt að halda þennan dag, það þarf ekki mikið til að gleðja og fá tilbreytingu. Gamla fólkið er að yngjast, Bítlarnir gætu t.d. verið komnir á dvalarheimili,“ segir Thelma glöð í bragði og ánægð með að fá KK til að skemmta.

„Maður finnur þegar matur er borinn fram með kærleik,“ voru fyrstu orð KK þegar hann tróð upp með gítarinn eftir að hafa fengið kraft úr gómsætri og matarmikilli súpunni, kvaðst síðan sjálfur eiga lítinn Færeying, fiskibátinn „Æðruleysið“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert