„Kraftaverk“ að vinna tókst úr gögnum

Ástráður Haraldsson og Jó­hann­es­ Rún­ar Jó­hanns­son­.
Ástráður Haraldsson og Jó­hann­es­ Rún­ar Jó­hanns­son­. mbl.is/Samsett mynd

Gunnlaugur Claessen, formaður hæfisnefndar vegna ráðningar dómara í Landsrétt, segir það hafa verið kraftaverk að nefndinni skyldi hafa tekist að vinna úr þeim gögnum sem hún fékk í hendurnar á þeim tíma sem henni var gefinn til þess.

Þetta kom fram í vitnisburði hans í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þar sem aðalmeðferð fór fram í viðurkenningarkröfum Ástráðs Haraldsson og Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar, hæstaréttarlögmanna, vegna skipan dómara við Landsrétt. Þeir voru ekki á meðal þeirra fimmtán dómara sem voru skipaðir við Landsrétt þrátt fyrir að hafa verið á meðal fimmtán efstu í mati hæfisnefndarinnar.

Hvorki Ástráður né Jóhannes Rúnar voru viðstaddir aðalmeðferðina í morgun.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Mjög mikið gagnamagn

Gunnlaugur sagði að þegar umsóknarfrestur um stöðurnar var liðinn 1. mars hafi enn átt eftir að skera úr um hæfi nefndarmanna. Það hafi tekið 10 til 14 daga. Það hafi endað með því að sumir viku og aðrir komu í staðinn.

Á þeim tímapunkti hafði nefndin að sögn Gunnlaugs haft tvo mánuði til stefnu til að ljúka verki sínu, með það í huga að þingslit höfðu verið boðuð 1. júní. Um miðjan maí þurfti að senda drög að nefndaráliti til andmæla og ráðherra þurfti að fá sinn tíma til að útbúa málið í hendur Alþingis.

Að sögn Gunnlaugs er óhætt að segja að gagnamagnið sem nefndin fékk í hendurnar hafi verið mjög mikið. Mjög margir dómar voru lagðir fram af hálfu dómara, lögmannagreinagerðir voru einnig lagðar fram ásamt stefnum, úrskurðum og gögnum frá fræðasamfélaginu. Flest gögnin hafi komið frá fræðasamfélaginu, þar meðal þrjár doktorsritgerðir, fjöldi kennslubóka, bókakafla, greina og fleira.

„Það var ljóst í upphafi að það lá gríðarlegt verk fyrir nefndinni. Okkur finnst sjálfum að það hafi verið kraftaverk að það skyldi takast að vinna þetta á þeim tíma sem var til stefnu,“ sagði hann en senda þurfti drög til umsagnar 11. maí.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert

Meta hæfi 20 í stað 15

Lögmaður stefnenda Ástráðs og Jóhannesar Rúnars, spurði hvað honum finnist um að ráðherra hafi haft 10 til 15 daga til að fara yfir öll gögnin.

Gunnlaugur svaraði því þannig að ráðherra hafi ekki þurfti að lesa í gegnum doktorsritgerðir og kennslubækur. Því hafi verið lýst í hæfnismatinu og var á höndum dómnefndar að fara yfir. „Ef lögmaður spyr hvort mér finnst ráðherra hafa haft knappan tíma til að koma sínum tillögum í hendur Alþingis þá ætla ég ekki að hafa skoðanir á því. Það getur vel verið að þetta hafi verið knappur tími.“

Hann benti á að ráðherra hafi óskað eftir því að fá drögin að nefndaráliti til andmæla 11. maí og því hafi hann í raun haft tíma til 29. maí til að fara yfir skjölin. Einnig hafi ráðherra fengið að sjá excel-skjalið með skorblaði nefndarinnar 11. maí en ekki fengið það afhent.

Gunnlaugur nefndi að það hafi komið upp á tveimur fundum að nefndin skyldi meta hæfi til dæmis 20 umsækjenda í stað 15. Ráðherra hafi kynnt þetta nefndinni en fengið engar undirtektir, því með því væri verið að færa hæfnismatið frá nefndinni í hendur ráðherra. Því hafi hugmyndinni verið hafnað. Síðar nefndi hann að í öðru skjali hafi komið fram að ráðherra taldi 24 umsækjendur vera hæfa.

Ástráður Har­alds­son.
Ástráður Har­alds­son. mbl.is/Styrmir Kári

Lítill munur í mörgum tilvikum

Farið var yfir skorblaðið sem nefndin notaðist við þegar ákveðið var hverjir skyldu hæfastir til að gegna starfi dómara í Landsrétti.  Gunnlaugur var spurður hvernig dómnefndin fór að því að gera upp á milli umsækjenda. Þrír aukastafir voru meðal annars notaðir í einkunnagjöfinni.

Að sögn Gunnlaugs var lítill munur á umsækjendum í fleiri tilvikum en í 15. og 16. sæti. Til dæmis í 10. og 11. sæti og 13. og 14. sæti. „Þetta hangir saman við að það var mjög stór hópur afar hæfra umsækjenda sem sótti um. Þarna um miðja töfluna munaði oft litlu.“

Hann sagði að skorblaðið hafi verið samtala af öllum þeim einkunnum sem lágu að baki. Nefndin hafi fylgt því. Hann lagði einnig áherslu á að mat nefndarinnar hafi að öllu leyti verið byggt á hlutlægum þáttum og að það hafi verið málefnalegt.

Kjartan Bjarni Björgvinsson.
Kjartan Bjarni Björgvinsson.

Betra að koma víða við

Dómsmálaráðherra hefur talað um að nefndin hafi ekki gefið dómarareynslu nægilegt vægi í mati sínu.

Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari, spurði Gunnlaug hvort umsækjendur sem hafa komið víða við sé líklegri til að standa betur að vígi heldur en umsækjendur sem hafa alltaf sinnt lögmannsstörfum.

Gunnlaugur játaði því og sagði slíkan umsækjanda standa styrkari fótum heldur en aðrir sem hafa ekki eins fjölbreytta reynslu. Óánægja hafi verið um þetta mat á meðal lögmanna og þeir telji sig ekki njóta jafnræðis á við aðra.

„Ólíkt öllu öðru“

Kjartan Bjarni spurði einnig út í það hvort nefndin hafi haft svigrúm til að fara nánar ofan í mat á því mikla gagnamagni sem hún fékk í hendurnar, enda ljóst að gæði gagnanna hafi verið misjöfn.

„Ég held að það blasi við að það hafi ekki verið hægt að fara djúpt ofan í mat á gæðum fræðaskrifa. Það hafi í mörgum tilvikum verið bara yfirferð og búið,“ sagði Gunnlaugur.

„Þetta mat núna var einstakt og engu öðru líkt. 34 sóttu um og einn datt út,“ bætti hann við og benti á að í þeim mötum sem hann hafi komið að áður hafi flestir umsækjendur verið níu talsins. Þar hafi verið sótt um eina stöðu.

„Það sem núna átti sér stað var ólíkt öllu öðru varðandi fjölda umsækjenda og álags sem var á nefndina. Það er augljóst að við þurftum að nýta tímann mjög vel frá fyrsta degi. Við hefðum sannarlega þurft lengri tíma. Það má vel fallast á það að raunhæfur möguleiki til að fara í djúpt mat á fræðiskrifum hefur ekki verði fyrir hendi.“

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis. mbl.is/Golli

Rætt við formenn kvöldið fyrir atkvæðagreiðslu

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, kom því næst í skýrslutöku. Þar spurði lögmaður stefnda út í atkvæðagreiðsluna þar sem ráðning dómaranna 15 í Landsrétt var samþykkt.

Hann sagði ekkert óvenjulegt við að kjósa um 15 tillögur með einni atkvæðagreiðslu. Hann greindi frá því að hann hefði rætt við formenn þingflokkanna um atkvæðagreiðsluna kvöldið áður og hvort hún skyldi vera á annan hátt. „Það var engin ósk frá neinum þingflokki um að tilteknir liðir í þessari ályktun yrðu bornir sérstaklega upp. Ég tel að það hafi ekkert óvenjulegt verið á ferðinni í þessari atkvæðagreiðslu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert