Sakar lögreglu um ómannúðlega meðferð

Kristín Elsa Harðardóttir lögmaður.
Kristín Elsa Harðardóttir lögmaður.

„Ég er reið og döpur að horfa upp á svona meðferð á fólki, brot á mannréttindum og meðalhófsreglu. Er það svona sem við viljum koma fram við fólk sem annað hvort er á leið hingað eða kemur hér við á leið sinni að betra lífi eða skjóli?“ segir Kristrún Elsa Harðardóttir lögmaður á Facebook-síðu sinni í kvöld vegna ungs manns sem handtekinn var síðustu nótt á Keflavíkurflugvelli vegna gruns um að hann hefði framvísað fölsuðum skilríkjum.

Maðurinn var á leiðinni til Bretlands með viðkomu á Íslandi þegar hann var handtekinn. Kristrún segir að ættingi hans í Bretlandi hafi beðið hana að gæta hagsmuna hans. Þegar hún hafi mætt til skýrslutöku yfir manninum hafi hann tjáð henni að hann hefði verið handtekinn klukkan 4:30 á flugvellinum og færður í handjárn og sett á hann magabelti sem handjárnin hafi verið fest við. Hann hafi upplifað sig sem stórhættulegan glæpamann.

Maðurinn tjáði Kristrúnu einnig að hann hefði ekkert fengið að drekka eða borða síðan hann var handtekinn eða í 13 klukkutíma. Kristrún segist hafa bent rannsóknarlögreglumanni á að maðurinn væri aðframkominn af hungri og þorska en lögreglumaðurinn ekkert sagst vita um málið. Hún hafi þá fært manninum vatnsglas. Eftir skýrslutöku hafi Kristrún látið bóka að maðurinn hefði sætt ómannúðlegri meðferð á lögreglustöðinni og ekkert fengið að borða.

Bent á að koma á mánudaginn

Þegar skýrslutökunni hafi verið lokið hafi verið hringt í bakvakt Reykjanesbæjar og tilkynnt um útlending í neyð. Reykjanesbær hafi hins vegar neitað að aðstoða manninn þar sem klukkan væri orðin 16:00 og skrifstofan lokuð. Hann gæti komið á mánudaginn. „Það átti að skilja manninn eftir allslausan á vergangi. Að endingu sótti maðurinn um hæli, sem hann ætlaði upphaflega ekki að gera hér á landi, og kemst hann þá í umsjá Útlendingastofnunar.“

Þegar Kristrún vakti aftur máls á því við lögregluna að maðurinn hefði ekkert fengið að borða eða drekka segist hún hafa fengið þau svör að maðurinn væri ekki lengur handtekinn heldur hælisleitandi og því ekki lengur á vegum lögreglunnar. Hann fengi því ekkert hjá þeim. Þegar Kristrún yfirgaf svæðið hafði maðurinn farið að borða úti í bæ ásamt túlki. Hann hafi verið látinn dúsa í 13 klukkutíma í fangaklefa án matar og drykkjar áður en skýrsla var tekin.

„Það þarf að skoða verklagið hjá lögreglunni á Suðurnesjum og viðmót lögreglumanna gagnvart þeirra skjólstæðingum. Það sem ég varð vitni að í dag er algerlega óásættanlegt!“ segir Kristrún að lokum og segist vona að fleiri séu sammála henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert