Viðrar vel til hlaupa og flugelda

Fjölmargir taka þátt í maraþoninu ár hvert.
Fjölmargir taka þátt í maraþoninu ár hvert. mbl.is/Ófeigur

Spár gera ráð fyrir hæglætisveðri á morgun þegar Menningarnótt verður haldin í 22. sinn í Reykjavík. Hlauparar í Reykjavíkurmaraþoni ættu því að geta sprett úr spori í ágætu veðri og sömuleiðis getur fólk notið þess að fylgjast með flugeldasýningu síðla kvölds.

„Það verður hæg norðlæg átt og léttskýjað á morgun,“ segir Arnór Tumi Jóhannsson, veðurfræðingur á Veðurstofu íslands. Hiti verður á bilinu 11 til 16 stig.

Veðurvefur mbl.is.

Hlauparar sem taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu krossleggja eflaust fingur og tær og vonast til þess að veðurguðirnir verði þeim hliðhollir. Erfitt getur reynst að hlaupa í miklum mótvindi en Arnór segir að ekki verði mikill blástur þegar þúsundir hlaupa um götur borgarinnar í fyrramálið.

Spár gera ráð fyrir því enn minni vindur verði um kvöldið en morguninn. Því ætti fólk að geta fylgst með flugeldasýningu lýsa upp himinhvolfin án mikillar vindkælingar, þó hitastig gæti farið niður fyrir tveggja stafa tölu seint annað kvöld.

Það verður sól í borginni á morgun.
Það verður sól í borginni á morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert