Hægristefnan lím ríkisstjórnarinnar

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna flutti ræðu á flokksráðsfundi VG …
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna flutti ræðu á flokksráðsfundi VG í morgun. Myndin er frá síðasta flokksráðsfundi flokksins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Skattamál, umhverfismál, aukinn ójöfnuður í samfélaginu og einkarekstur voru á meðal þeirra pólitísku mála sem Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, gerði að umfjöllunarefni ræðu sinnar sem hún hélt á flokksráðsfundi VG í morgun.

Í efnahagsmálum hvatti hún til skattahækkana og talaði í því sambandi um hóflegan auðlegðarskatt, þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt, auðlindagjöld og hátekjuskatt. „Vaxandi misskipting gæða sprettur beinlínis af því efnahagskerfi og þeim pólitísku stefnum sem hafa verið ráðandi undanfarna áratugi og nú er svo komið að sífellt fleira fólk er farið að finna fyrir því. Slíkt ástand skapar tortryggni og vantraust hjá almenningi gagnvart því skipulagi sem samfélög okkar byggja og skapar jarðveg fyrir öfgahreyfingar,“ sagði Katrín í ræðu sinni.

„Í raun skilur enginn hvert er erindi þessarar ríkisstjórnar annað en að viðhalda hægrisinnaðri efnahagsstjórn, hægrisinnaðri skattastefnu og hægrisinnuðum viðhorfum í ríkisrekstri þar sem áhersla er lögð á sveltistefnu og einkarekstur. Það er límið sem heldur stjórninni saman.“

Hún sagði framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar um kjör aldraðra og öryrkja einnig dapurlega. „Kjör þessara hópa voru mjög til umræðu fyrir kosningar en í fjármálaáætluninni birtist sýn ríkisstjórnarinnar: Miðað við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar munu öryrkjar fá 288 þúsund króna mánaðarlaun árið 2022. Þetta er sýn ríkisstjórnarinnar á hvernig kjör þessa hóps eigi að vera.“

Óánægð með gjaldtöku við náttúruperlur

Í atvinnumálum lýsti Katrín yfir vonbrigðum með gjaldtöku við náttúruperlur um land allt. „Þetta hefur verið látið átölulaust af hálfu stjórnvalda sem sjálf hafa hafið gjaldtöku í þjóðgörðum áður en lokið hefur verið við vinnu um lagaákvæði um almannarétt sem átti að ljúka samkvæmt bráðabirgðaákvæði náttúruverndarlaga,“ sagði Katrín.

Eins sagðist hún óánægð með að landbúnaðarráðherra skyldi ekki hafa nýtt tækifærið þegar endurskipuð var nefnd um búvörusamninga að setja þar inn fulltrúa frá umhverfis- og náttúruverndarsamtökum sem þó sóttust eftir því að fá sæti við það borð.

Frá síðasta flokksráðsfundi VG.
Frá síðasta flokksráðsfundi VG. mbl.is/Ófeigur

„Og tryggja þannig að umhverfissjónarmið yrðu í hávegum höfð í stefnumótun í landbúnaði. Nei, stefnumótun ríkisstjórnarinnar í þeim mikilvæga atvinnuvegi snýst nefnilega ekki um umhverfi heldur að fá Costco-áhrif í innlendan landbúnað. Hvað það merkir nákvæmlega veit ég ekki enda lýtur smásala á matvöru allt öðrum lögmálum en sjálfbær landbúnaður þar sem ekki aðeins þarf að tryggja neytendum gæðavöru heldur einnig líffræðilega fjölbreytni, loftslagsmarkmið og umhverfi,“ sagði Katrín.

Hún gagnrýndi jafnframt getuleysi stjórnvalda í loftlagsmálum og sagði það vonbrigði að tillaga Vinstri-grænna um kolefnishlutlaust Ísland hafi ekki hlotið brautargengi á síðasta þingi sem miðaði að því að Ísland yrði kolefnishlutlaust árið 2040.

„Í loftslagsmálum hefur það helst gerst að sex ráðherrar héldu blaðamannafund um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Sum okkar héldu að tilefni blaðamannafundar væri þá að kynna ætti aðgerðaáætlun eða í öllu falli einhver leiðarljós á þessu sviði. Svo var ekki, tíðindi fundarins reyndust vera að gera ætti áætlun. Hins vegar munum við Vinstri-græn styðja allar aðgerðir umhverfisráðherra sem miða í rétta átt í umhverfis- og náttúruverndarmálum og vinna að framgangi þeirra, hvort sem um er að ræða aðgerðir í loftslagsmálum, miðhálendisþjóðgarð eða stjórnsýslu náttúruverndarmála. En stóra málið er að athafnir fylgi orðum,“ sagði Katrín.

Katrín fór um víðan völl í ræðu sinni og gagnrýndi m.a. Donald Trump Bandaríkjaforseta, einkaframkvæmdir í samgöngumálum og hugsanlega gjaldheimtu á vegum í kringum höfuðborgina, fjársvelti menntakerfisins og hugmyndir Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur um aukna þátttöku einkaaðila í rekstri skóla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert