Staðið verður við búvörusamninginn

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnvöld hafa ekki annað í hyggju en að standa við búvörusamninginn sem samþykktur var á Alþingi síðasta haust. Þetta hefur Ríkisútvarpið eftir Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra. Mikilvægt sé hins vegar að finna lausn til framtíðar á vanda sauðfjárbænda.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagði á dögunum í blaðagrein að búvörusamningarnir væru rót vanda sauðfjárbænda. Til greina kæmi að ríkið kæmi að því að leysa vanda sauðfjárbænda vegna lækkandi afurðaverðs en það yrði hins vegar ekki gert á meðan í gildi væru búvörusamningar sem stuðluðu að offramleiðslu.

Frétt mbl.is: Vill endurskoða búvörusamninginn

„Það er í gildi búvörusamningur og það stendur ekkert annað til að stjórnvöld standi við hann. Nú er verið að kalla eftir því að menn komi með eitthvað til viðbótar. Það eru ýmsar leiðir í því. Sumar hafa farið í það ýta vörum út af markaðnum. Aðrar leggja áherslu á að draga úr stærð sauðfjárstofnsins,“ hefur Ríkisútvarpið eftir Bjarna.

Síðan væri mögulega hægt að fara blöndu af þessum tveimur leiðum. Sagðist forsætisráðherra vilja að fundin yrði framtíðarlausn á vanda sauðfjárbænda í samráði við bændur. Ekki væri nóg að setja bara plástur á sárin í þeim efnum. Búvörusamningurinn gerði beinlínis ráð fyrir slíku samtali á samningstímanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert