„Þetta er bara óhappahelgi hjá okkur“

„Þarna er bara um tæknilega bilun að ræða, því miður, sem verið er að vinna að viðgerð á eins fljótt og auðið er. Því miður eru engar leiguvélar tiltækar um helgar í Evrópu í sumar. Þannig að þegar ein vél bilar þá kemur eiginlega ekkert í staðinn.“

Þetta segir Hrafn Þorgeirsson, forstjóri Primera Air, í samtali við mbl.is en farþegar sem áttu bókað flug heim frá Tenerife á Kanaríeyjum eru enn ekki lagðir af stað til Íslands um 20 klukkustundum eftir áætlaða brottför klukkan fjögur í gær.

Frétt mbl.is: „Fólk sefur bara hérna á gólfunum“

Mbl.is hefur einnig fengið upplýsingar um fleiri seinkanir. Meðal annars á flugi til Íslands frá Malaga á Spáni og sömuleiðis frá Íslandi til borgarinnar. Þá eru farþegar tiltölulega nýkomnir til landsins eftir miklar seinkanir á flugi þeirra hingað.

Hrafn segir allt kapp lagt á að leysa málið sem fyrst. „Við biðjumst að sjálfsögðu velvirðingar á þessu. Síðan gekk illa að finna hótelherbergi í nótt á Tenerife.“ Samkvæmt upplýsingum frá Primera Air eru farþegarnir nú allir komnir á hótel.

Réttar upplýsingar þegar þær voru veittar

Farþegar hafa kvartað vegna skorts á upplýsingum og að ítrekað hafi verið tilkynnt að veittar yrðu upplýsingar um stöðuna. Hrafn segir spurður um það að tæknilegar bilanir séu þess eðlis að slíkar upplýsingar séu veittar í góðri trú.

„Fyrst þarf að greina bilanirnar og síðan er áætlað að það taki ákveðinn tíma að gera við þær og síðan gengur það kannski ekki eftir. Ég skil auðvitað vel viðskiptavinina sem fá slíkar upplýsingar í byrjun sem reynast síðan ekki réttar.“

Hins vegar sé ekki um rangar upplýsingar að ræða heldur séu þær réttar á þeim tímapunkti sem þær eru gefnar. Síðan breytist aðstæður sem ekki var séð fyrir. „Það er bara erfitt við þetta að eiga en þetta er bara vandamál sem flugfélög eiga í.“

Við þetta bætist að erfitt getur verið að fá varahluti. Þannig séu engir varahlutir á Kanaríeyjum og senda þurfi þá frá meginlandinu. Þá sé fljótt komin 10-12 klukkutíma seinkum. Við það hafi bæst hvíldartími flugmanna.

„Þetta er bara óhappahelgi hjá okkur, því miður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert