„Þetta er leiðinlegt og grautfúlt“

Eyrin á Borgarfirði eystri.
Eyrin á Borgarfirði eystri. ljósmynd/Facebook-síða Eyrinnar

„Þetta er auðvitað hundfúlt,“ segir Arngrímur Viðar Ásgeirsson, einn rekstraraðila verslunarinnar Eyrarinnar á Borgarfirði eystra, sem tekin hefur verið ákvörðun um að loka 1. september. Um er að ræða einu matvöruverslunina í bænum.

Rekstraraðilar segjast ekki geta rekið verslunina áfram í taprekstri, en heimamenn segja lokunina vera mikinn missi fyrir samfélagið þar sem 70 kílómetrar eru í næstu verslun. Um áttatíu manns búa í fastri búsetu á Borgarfirði eystra, en fleiri dvelja þar á sumrin.

Misheppnuð tilraun

Tilkynnt var um lokunina á Facebook-síðu Eyrarinnar á föstudag. Þar þökkuðu rekstraraðilar fyrir ánægjulega samfylgd en sögðu að ekki yrði lengra haldið í taprekstri af sinni hálfu. Í samtali við mbl.is segir Arngrímur að ekki sé hægt að standa í taprekstri ár eftir ár, og forsendur hafi breyst til hins verra.

„Það er mjög góð þjónusta á Egilsstöðum og hörð samkeppni í verslunarrekstri þar sem Borgarfjörður er ekki undanskilinn. Það er eðlilegt að fólk leiti í þær verslanir sem bjóða upp á besta verðið og vöruframboðið,“ segir Arngrímur og bendir á að slíkt hið sama sé að eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta er auðvitað leiðinlegt og grautfúlt, en við getum ekki haldið þessu áfram,“ segir Arngrímur og bendir á að staðan sem upp er komin sé afleiðing samfélagsþróunar. Annars vegar sé mikil fólksfækkun í byggðum sem þessari, og hins vegar sé bætt aðgengi að verslun.

Áður ráku Samkaup verslun í bænum, en fyrir tveimur árum tók hópur heimafólks við rekstrinum eftir að erfiðlega gekk að manna vaktir í versluninni. Arngrímur segir að því miður hafi tilraunin ekki heppnast sem skyldi. „Það má segja að þetta sé misheppnuð tilraun ef menn vilja orða það þannig,“ segir hann.

ljósmynd/Facebook-síða Eyrinnar

„Ekki það sem við óskuðum okkur“

Bergvin Snær Andrésson, íbúi á Borgarfirði eystra, segir lokunina munu hafa mikil áhrif á samfélagið. „Maður hleypur ekki út í búð og kaupir mjólk núna,“ segir hann og bendir á að 70 kílómetrar séu yfir á Egilsstaði þar sem næsta búð er. Segir hann leiðina oft vera illfæra, en íbúar hafa kvartað mikið und­an mal­ar­veg­inum sem ligg­ur yfir Vatns­skarð og að firðinum. Auk þess segir Bergvin leiðina oft vera þungfæra á veturna, og stundum sé jafnvel ekki hægt að komast á milli.

„Þetta er ekki alveg það sem við óskuðum okkur. Vegurinn er mjög slæmur svo maður getur ekki keyrt á almennilegum hraða auk þess sem það fer illa með bílana að keyra þennan veg,“ segir hann.

„Fólk hefur verið að fara í Bónus á Egilsstöðum og versla, en við erum mörg þeirrar skoðunar að við viljum versla í heimabyggð til að halda í þetta. Því miður þá er það ekki hægt lengur,“ segir Bergvin. Sjálfur er hann sjómaður og hefur keypt kost fyrir sjóferðir í Eyrinni. „Maður kaupir kost yfirleitt daginn áður eða samdægurs og það er mjög vont að þurfa að vera að fara alla leið á Egilsstaði til að gera það.“

Segir hann verslunina hafa verið mikið þarfaþing fyrir fólk í bænum. „Faðir minn er til dæmis bóndi og hann fer nú ekki neitt nema í verslunina einu sinni í viku. Ef hann þyrfti að fara til Egilsstaða fyrir brauð og mjólk í hverri viku væri það nú ansi dýrt,“ segir hann.

Auk þess leggi mikið af ferðamönnum leið sína til Borgarfjarðar eystra á sumrin, og slæmt verði fyrir þá að komast ekki í búð. „Það er hryllilegt fyrir þá að koma hingað og það er ekkert opið,“ segir hann.

Ekkert eftir í bænum nema banki

Arngrímur segir versluninni verða lokað 1. september að öllu óbreyttu. „Forsendur geta auðvitað breyst en ég veit ekki hvað það yrði sem þyrfti að gerast svo við myndum ekki loka,“ segir hann. „En ég er viss um að sveitungar mínir finna einhverja lausn á þessu máli og hvernig menn haga innkaupum.“

Bendir Arngrímur á að fólk þurfi að hugsa á hvaða forsendum verslanir sem þessi séu reknar, og hvort um nauðsynlega þjónustu sé að ræða. Til að mynda séu áætlunarferðir til Egilsstaða alla virka daga á milli 8 og 12, og margir versli alltaf á Egilsstöðum.

Bergvin segist vona að sveitarfélagið muni leita leiða til að bregðast við stöðunni sem nú er komin upp. „Við erum ekki með heilbrigðisþjónustu og þurfum að sækja hana til Egilsstaða líka. Svo þurfti að skerða þjónustu Póstsins svo það er ekki einu sinni pósthús hér. Það er í raun ekkert eftir hér nema banki,“ segir hann.

ljósmynd/Facebook-síða Eyrinnar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert