Engin fornbílasýning á Ljósanótt

Fornbílaklúbbur Íslands verður ekki með sýningu á ljósanótt vegna ákvörðunar …
Fornbílaklúbbur Íslands verður ekki með sýningu á ljósanótt vegna ákvörðunar lögreglustjóra um að loka fyrir umferð um Hafnargötu á meðan að á hátíðinni stendur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fornbílaklúbbur Íslands hefur aflýst ráðgerðum akstri og sýningu fornbíla á Ljósanótt nema lögreglustjórinn á Suðurnesjum og bæjarstjórn Reykjanesbæjar endurskoði að leyfa umferð fornbíla um Hafnargötu meðan á hátíðinni stendur.

Eins og mbl.is greindi frá í síðustu viku hefur lögreglan á Suðurnesjum í samráði við öryggisnefnd Ljósanætur ákveðið að banna akstur bifreiða um Hafnargötu í Reykjanesbæ meðan á hátíðinni stendur þar sem hún telur það geta stofnað fótgangandi vegfarendum í hættu.

Þýðir þetta meðal annars að Fornbílaklúbbur Íslands, sem ásamt félögum í öðrum bílaklúbbum hefur undanfarin ár tekið þátt í hátíðarakstri um Hafnargötu á Ljósanótt, verður ekki með sýningu í ár.

„Það er niðurstaða stjórnar að fyrst það er algjörlega tekin ákvörðun um þetta án nokkurs samráðs eða útskýringar við þá sem eru skipuleggjendur þessa aksturs þá sé betra heima setið,“ segir Rúnar Sigurjónsson, fjölmiðlafulltrúi Fornbílaklúbbs Íslands, í samtali við mbl.is.

Hafa þeir sent lögreglustjóra og bæjarstjórn Reykjanesbæjar tilkynningu þessa efnis þar sem þeir eru beðnir um skýringu á ákvörðuninni og um endurskoðun hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert