Gefur vökudeild kolkrabba

Armarnir minna á naflastrenginn sem fyrirburarnir geti fiktað í líkt …
Armarnir minna á naflastrenginn sem fyrirburarnir geti fiktað í líkt og þeir voru vanir að gera í móðurkviði. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirburar sem fá prjónaðan eða heklaðan kolkrabba í hitakassann braggast fyrr. Þetta segir Marella Steinarsdóttir sem undanfarna mánuði hefur safnað hekluðum og prjónuðum kolkröbbum fyrir vökudeild Barnaspítalans.

Sjálf eignaðist Marella fyrirbura en við fæðingu fékk sonur hennar kolkrabba að gjöf sem hafði virkilega jákvæð áhrif á bataferli hans. Að sögn Marellu er hugmyndin á bak við kolbrabbann ósköp einföld. „Armarnir á kolkrabbanum minna á naflastrenginn, fyrirburarnir geta fiktað í honum líkt og þeir eru vanir að gera við naflastrenginn í móðurkviði. Þetta kemur líka í veg fyrir að þeir séu að fikta í öllum þeim snúrum sem umlykja þá í hitakassanum,“ segir Marella sem byrjaði að kynna sér málið fljótlega eftir fæðingu sonar hennar.

„Frænka mannsins míns benti mér á að það væru ýmsar rannsóknir til um þetta í Bandaríkjunum. Það var búið að prófa verkefnið á ýmsum ungbarnadeildum og alstaðar var niðurstaðan sú sama, börnin brögguðust fyrr. Við ákváðum því að láta á þetta reyna og það var augljóst að þetta hafði góð áhrif.“

Móttökurnar framar vonum

Markmið Marellu er að hvert barn sem leggst inn á …
Markmið Marellu er að hvert barn sem leggst inn á vökudeild Barnaspítalans fái kolkrabba til eignar mbl.is/Árni Sæberg


Hún segir móttökurnar sem hún hefur fengið hafa verið ótrúlegar og langt umfram það sem hún átti von á. „Ég setti inn færslu á Facebook í hálfgerðu vonleysi með son minn andvaka og svefnlausan. Þegar ég vaknaði síðan daginn eftir voru viðbrögðin svo miklu meiri en ég bjóst við. Allar prjónakonur landsins voru byrjaðar að búa til kolkrabba auk þess sem hekl- og hannyrðahópar voru farnir á fullt í að setja sér markmið sem miðuðu að því að framleiða eins marga kolkrabba og möguleiki var á,“ segir Marella og bætir við að í kjölfar viðbragðanna hafi markið verið sett á 200 kolkrabba enda er það um það bil sá fjöldi fyrirbura sem fæðist ár hvert.

Nú þegar hafa safnast rúmlega 100 en Marella vonar að framhald verði á verkefninu. „Þetta hefur gengið alveg frábærlega og það er vonandi að við getum haldið þessu áfram næstu ár,“ sagði hún að lokum.

Hvert barn fái kolkrabba

Markmið Marellu er að hvert barn sem leggst inn á vökudeild Barnaspítalans fái kolkrabba til eignar. Hún segir að þeir sem hafi áhuga á að leggja málefninu lið geti komið við í Gallerý Snotru á Akranesi og fengið garn. „Fólk getur bæði komið hingað og fengið garn til að búa til kolkrabba eða skilað af sér afgangsgarni sem aðrir geta nýtt sér, segir Marella og bætir við að nokkur skilyrði séu fyrir hversu stór og úr hvaða efni kolkrabbinn má vera. „Kolkrabbinn þarf að vera úr 100% bómul auk þess sem hann verður að bilinu 15 til 17 cm að ummáli yfir höfuðið. Ég bendi síðan þeim sem hafa áhuga á verkefninu að skoða Facebook-síðuna okkur, Kolkrabbar fyrir vökudeild, en þar er að finna nánari skýringar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert